Fótbolti

Willum um 7-0 tapið gegn FH: „Veit ekki hvað ég á eigin­lega að segja um þennan leik“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr leiknum fræga 2003.
Úr leiknum fræga 2003. vísir/s2s

Willum Þór Þórsson segir að 7-0 tapið með KR gegn FH í lokaleik Íslandsmótsins 2003, þegar KR hafði tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn, sé ótrúlegur leikur. Hann segir KR-liðið ekki hafa spilað illa en allt hafi farið í netið.

Alþingismaðurinn Willum settist í stólinn hjá Rikka G í gær þar sem hann gerði upp leikmanna- og þjálfaraferilinn hingað til en Willum er nú ekki að þjálfa þar sem hann situr á þingi fyrir Framsóknarflokkinn.

Silfurlið FH frá árinu 2003 skellti meisturum KR 7-0 í lokaumferðinni á Kaplakrikavelli og aðspurður um þann leik sagði Willum:

„Ég veit ekki hvað ég á eiginlega að segja um þennan leik. Þetta var alveg ótrúlegur leikur,“ sagði hann og hélt svo áfram.

„Það er skrýtið að segja það en við spiluðum kannski ekkert illa en það fór allt í markið. Þarna skipti ég út allri varnarlínunni og í bland við svekkelsið að falla út í bikar. Við fengum þetta allt í andlitið.“

„Þarna er enn ein lexían sem maður fær sem þjálfari. Þarna var verkefni mitt að halda mönnum á tánum sem mér tókst ekki.“

FH gekk svo á lagið næstu ár og varð Íslandsmeistari þrjú ár en hann segir að þeir hafi verið komnir með ansi gott lið þetta tímabilið.

„FH var strax þetta tímabil með geysilega öflugt lið. Ég held að þeir hafi bara þurft þetta tímabil til þess að átta sig á því hvað þeir voru komnir með öflugt lið í hendurnar. Þeir voru komnir með Tommy Nielsen, Allan Borgvardt og gríðarlega öflugt lið. Að enda tímabilið svona hafi ekki skemmt fyrir þeim að fara inn í næsta tímabil þar sem þeir ná að landa titlinum.“

Klippa: Sportið í kvöld - Willum um 7-0 tapið gegn FH

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×