Erlent

Betur gengur að hemja eldana

vísir/afp
Enn er barist við skógareldana miðsvæðis í Svíþjóð og nú er áhersla lögð á að beita þyrlum og flugvélum sem geta sleppt miklu magni vatns yfir skóginn.

Þær aðgerðir hófust að nýju nú í morgunsárið. Eldurinn brennur enn stjórnlaust á stóru svæði en betur hefur þó gengið að hemja hann og koma í veg fyrir að ný svæði verði logunum að bráð. Nú er til að mynda talið ljóst að bærinn Norberg verði ekki eldunum að bráð eins og óttast var í byrjun vikunnar.

Sérstakar flugvélar voru fluttar inn frá Frakklandi til þess að nota í slökkvistarfið og voru þær notaðar að einhverju leyti í gær en sökum óhagstæðra veðurskilyrða varð minna úr því en áætlanir gerðu ráð fyrir. Veðurspáin er hagstæðari í dag og vonast menn til þess að hægt verði að beita vélunum í allan dag og fram á kvöld. Þá er vonast til þess að hægt verði að fljúga yfir brunasvæðið í dag á þyrlu til þess að hægt sé að meta skemmdir af völdum eldanna á náttúrunni og á þeim byggingum sem eru á svæðinu.




Tengdar fréttir

Heimili Íslendings í hættu vegna eldanna

„Við fengum vinafólk okkar sem er með lykil að húsinu okkar til að fara heim og ná í myndir og það sem okkur þykir vænt um,“ segir Anna Lindgren.

Fórst í skógareldunum í Svíþjóð

Einn er nú látinn í skógareldunum sem geisað hafa í Mið-Svíþjóð síðustu daga og fimmþúsund manns í bænum Norberg búa sig nú undir að yfirgefa heimili sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×