Erlent

Fórst í skógareldunum í Svíþjóð

Mynd/AP
Einn er nú látinn í skógareldunum sem geisað hafa í Mið-Svíþjóð síðustu daga og fimmþúsund manns í bænum Norberg búa sig nú undir að yfirgefa heimili sín.

Þetta er fyrsta dauðsfallið sem vitað er um af völdum eldanna sem enn loga glatt. Um hundrað manns börðust við eldhafið í alla nótt og í dag er von á flugvélum frá Frakklandi og Ítalíu sem eru sérhannaðar til að berjast við slíkar hamfarir.

Maðurinn sem lést var þrjátíu ára gamall og fannst hann norður af bænum Staback. Ekki er ljóst hvernig dauða hans bar að en líkið fannst rétt eftir miðnætti að sænskum tíma. 42 ára gamall bílstjóri slasaðist einnig alvarlega á sama svæði í gær og telur lögregla að hann og sá sem lést hafi jafnvel verið samstarfsmenn, en kennsl hafa enn ekki verið borin á hinn látna.

Nú er mest áhersla lögð á að hefta útbreiðslu eldanna, en ekki að útrýma þeim enda brenna þeir stjórnlaust á stórum svæðum.  Fólki er ráðlagt að halda sig frá svæðinu og þegar hafa um þúsund þurft að yfirgefa heimili sín. Og í bænum Norberg í Vastmanland, þar sem um fimm þúsund manns búa, er brottflutningur í undirbúningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×