Innlent

Lög um vernd uppljóstrara „framfaraskref fyrir aukið gagnsæi og heilbrigðara samfélag“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Alþingi samþykkti mótatkvæðalaust lög um vernd uppljóstrara í gærkvöldi. Forsætisráðherra segir lögin styrkja stöðu þeirra sem í góðri trú greina frá lögbrotum eða ámælisverðri háttsemi. Þetta sé jákvætt skref í þágu aukins gagnsæis.

Hugmyndir um vernd uppljóstrara ganga almennt út á „að sá sem í góðri trú greinir frá spillingu, ólögmætum ráðstöfunum eða annarri ámælisverðri háttsemi í starfsemi opinberra aðila eða hjá einkaaðilum skuli njóta verndar gegn óréttmætum aðgerðum í hans garð, til að mynda uppsögn úr starfi eða skerðingu á réttindum vegna uppljóstrana sinna,“ líkt og það er orðað í greinargerð með frumvarpinu sem samþykkt var í gær.

Með ámælisverðri háttsemi sé vísað til hátternis sem stefnir almannahagsmunum í hættu, án þess að um sé að ræða brot á lögum eða reglum. „Þessi lög eiga rætur að rekja til nefndar sem að ég skipaði 2018 til þess að gera umbætur á löggjöf að sviði tjáningar-, fjölmiðla-, og upplýsingafrelsis og þetta mun styrkja mjög stöðu þeirra sem í góðri trú greina frá upplýsingum eða miðla gögnum um brot á lögum eða um aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda,“ segir Katrín.

Lengi hafi verið kallað eftir slíkum lögum á Íslandi. „Þannig að ég lít á þetta sem mikið framfaraskref fyrir bæði aukið gagnsæi og heilbrigðara samfélag,“ segir Katrín. Hún segir að í lögunum felist ekki heimild til að rjúfa almennar reglur um trúnað í starfi. 

„Þarna eru skilgreind í raun og veru annars vegar að það sé verið að miðla gögnum um brot á lögum eða ámælisverða háttsemi sem er skilgreind og það er líka gert ráð fyrir því að það sé farvegur fyrir svokallaða innri uppljóstrun, áður en ráðist er í ytri uppljóstrun,“ segir Katrín.

„Þannig að hugsunin er sú að við séum að skapa hér ákveðið jafnvægi á milli þess sem getur talist eðlileg þörf, hvort sem er stofnana eða fyrirtækja, til að hafa ákveðnar upplýsingar í trúnaði og hins vegar upplýsingar sem eiga erindi við almenning, að þeim sé hægt að miðla.“

Fimmtíu þingmenn greiddu frumvarpinu atkvæði sitt en Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Aðrir þingmenn voru fjarstaddir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.