Erlent

Gekk út af blaða­manna­fundi eftir að hafa rifist við frétta­menn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, á blaðamannafundinum í gær.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, á blaðamannafundinum í gær. Getty/Drew Angerer

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, gekk út af blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær eftir að Weijia Jiang, fréttaritari CBS, spurði forsetann hvers vegna það skipti svo miklu máli að Bandaríkin væru að standa sig mun betur en öll önnur ríki þegar kemur að því að skima fyrir kórónuveirunni.

„Hvers vegna er þetta alþjóðleg samkeppni fyrir þér þegar Bandaríkjamenn eru að deyja á hverjum degi og við erum enn að sjá fjölgun smita dag hvern?“ spurði Jiang sem er af asísku bergi brotin.

Trump svaraði að fólk væri að deyja um allan heim.

„Þetta er kannski spurning sem þú ættir að spyrja Kína. Ekki spyrja mig. Spurðu Kína að þessu. Þegar þú spyrð Kína að þessu muntu fá mjög óvenjulegt svar,“ sagði Trump.

Trump bauð síðan öðrum blaðamanni, Kaitlan Collins frá CNN, að spyrja en hún hinkraði þar sem Jiang spurði forsetann hvers vegna hann væri að segja þetta við hana sérstaklega.

„Ég er ekki að segja þetta sérstaklega við neinn. Ég er að segja þetta við hvern þann sem myndi spyrja svona andstyggilegrar spurningar,“ sagði Trump.

„Þetta var ekki andstyggileg spurning,“ svaraði Jiang.

Collins reyndi síðan að spyrja forsetann en hann var þá farinn að benda á annan fréttamann sem stóð aftar. Collins mótmælti því að fá ekki að spyrja og stuttu síðar gekk Trump út af blaðamannafundinum.

Bandaríkjaforseti hefur ítrekað verið gagnrýndur fyrir að vera með niðrandi tón í garð kvenna á blaðamannafundum og þá sérstaklega í garð kvenna af erlendum uppruna. Jiang fæddist í Kína en flutti til Bandaríkjanna sem barn.

Trump fór ekki varhluta af gagnrýni í kjölfar fundarins í gær. Tara Setmayer, pólitískur álitsgjafi, sagði viðbrögð Trump við hnitmiðaðri spurningu Jiang rasísk og svívirðileg.

„Trump höndlar ekki klárar, ákveðnar konur,“ sagði Setmayer í færslu á Twitter.

Trump brást einnig við uppákomunni á blaðamannafundinum á Twitter. Sagði hann að „Lamestream“-fjölmiðlarnir væru stjórnlausir.

„Sjáið hvernig þeir vinna saman (samsæri!). Þeir eru óvinir fólksins en hafið engar áhyggjur, við munum VINNA í nóvember,“ skrifaði forsetinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×