Enski boltinn

Souness vildi ekki fá Cantona til Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eric Cantona fagnar einu þriggja marka sinna í leik Leeds United og Liverpool um Samfélagsskjöldinn 1992.
Eric Cantona fagnar einu þriggja marka sinna í leik Leeds United og Liverpool um Samfélagsskjöldinn 1992. vísir/getty

Greame Souness hafnaði því að fá Eric Cantona til Liverpool árið 1991. Skömmu síðar gekk Frakkinn í raðir Leeds United.

Eftir 3-0 sigur Liverpool á Auxerre í UEFA-bikarnum í nóvember 1991 kom Michel Platini, þáverandi landsliðsþjálfari Frakka, að máli við Souness og hvatti hann til að semja við Cantona. Hann var þá í tveggja mánaða banni eftir að hafa kastað bolta í dómara í leik með Nimes.

„Eftir leikinn gegn Auxerre var maður fyrir utan sem sagðist vera góður félagi minn. Það var Michel Platini. Ég hafði reyndar bara einu sinni hitt hann, þegar ég lék með Sampdoria og hann með Juventus,“ sagði Souness í The Football Show á Sky Sports.

„Hann kom inn og sagðist vera með leikmann fyrir mig. Hann væri vandræðagemsi í Frakklandi en gríðarlega hæfileikaríkur og fullkominn fyrir Liverpool.“

Souness, sem var þarna á sínu fyrsta tímabili sem knattspyrnustjóri Liverpool, var ekki tilbúinn að taka áhættuna á Cantona.

„Ég sagði við hann ég ætti fullt í fangi með að gera breytingar hjá Liverpool og hreinsa til. Menn streittust á móti og ég væri að reyna að ná klefanum á mitt band. Það síðasta sem ég þyrfti væri annar umdeildur karakter,“ sagði Souness.

„Síðan fór Eric á reynslu til Sheffield Wednesday og svo til Leeds United. Framhaldið þekkja svo allir.“

Cantona varð Englandsmeistari með Leeds 1992 en gekk svo í raðir Manchester United þá um haustið. Þar vann hann fjóra Englandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla.

Souness hætti sem stjóri Liverpool í janúar 1994. Við starfi hans tók Roy Evans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×