Erlent

Kórónu­veiran greindist í hundi eftir að eig­andinn smitaðist

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hundasnyrtar að störfum í Hong Kong í gær.
Hundasnyrtar að störfum í Hong Kong í gær. Vísir/vilhelm

Yfirvöld í Hong Kong hafa varað fólk við því að kyssa gæludýr sín eftir að kórónaveira greindist þar í hundi. Þá biðla yfirvöld einnig til fólks að yfirgefa ekki gæludýr sín og halda ró sinni. Matvælastofnun fylgist vel með þekkingarþróun á þessu sviði.

Eigandi hundsins í Hong Kong hafði smitast af kórónuveirunni. Hundurinn, sem er af tegundinni pomeranian, var í kjölfarið prófaður fyrir veirunni og sýni úr honum sýndi „veika jákvæða“ niðurstöðu. Hundurinn var fyrst prófaður 26. febrúar, næst 28. sama mánaðar og að síðustu 2. mars. Niðurstaðan var sú sama í öllum tilvikum.

Ekkert bendi til þess að dýr geti smitast

Guardian hefur eftir upplýsingum frá landbúnaðarráðuneyti Hong Kong að veiran hafi líklegast borist í hundinn úr manni. Hundurinn sýnir engin einkenni veirunnar og virðist við hestaheilsu í einangrun í Hong Kong. Hann verður þar þangað til sýni úr honum hætta að sýna jákvæða niðurstöðu. Þá verður honum skilað til eiganda síns.

Sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) hafa rannsakað málið. Reynt hefur verið að skera úr um það hvort hundurinn hafi í reynd smitast af veirunni eða hvort hún hafi borist í hann úr umhverfinu. WHO segir ekkert benda til þess að dýr á borð við hunda og ketti geti smitast af kórónuveirunni.

Yfirvöld í Hong Kong beina því til gæludýraeigenda að viðhafa hreinlæti, einkum eftir að hafa meðhöndlað dýrin sjálf og mat þeirra, auk þess sem þeir eru hvattir til að kyssa þau ekki. Hið síðarnefnda eigi einkum við um þá sem eru veikir fyrir.

Nýjar upplýsingar berast stöðugt

Matvælastofnun hefur gefið út upplýsingar og leiðbeiningar vegna gæludýra og kórónuveirunnar. Á vef stofnunarinnar segir að fylgst sé vel með þekkingarþróun á þessu sviði en í gær, þegar leiðbeiningarnar voru birtar, hafði engum „útskilnaði á þessari veiru“ verið lýst hjá húsdýrum eða gæludýrum.

Þá hafi ekki verið staðfest að menn geti smitað dýr.

„Þetta er nýr sjúkdómur og því er hann og smitleiðir hans ekki fullrannsakaðar en nýjar upplýsingar berast stöðugt. Matvælastofnun mælir með að einstaklingar sem eru í sóttkví í heimahúsi og einangrun í heimahúsi takmarki snertingu sína við matvælaframleiðandi dýr.“

Þá sé engin ástæða fyrir fólk að vera ekki með gæludýrum sínum. Þau geti jafnframt veitt mikilvægan andlegan stuðning við erfiðar aðstæður.

Þá sé talið fræðilega mögulegt að dýr geti borið smit frá einum einstaklingi til annars án þess að smitast sjálft. Sú smitleið sé þó ekki þýðingarmikil.

„Veiran smitast aðallega milli fólks. Ekki er útilokað að dýr geti borið veirur í feldi, húð og slímhúð í nokkurn tíma eftir snertingu við smitandi mann en ekki hefur verið sýnt fram á að dýr skilji út veirur. Það er alltaf mælt með því að þvo hendur eftir snertingu við dýr.“

Auður L. Arnþórsdóttir, sérgreinadýralæknir faraldsfræði hjá Matvælastofnun, segir í samtali við Morgunblaðið um málið í morgun að tilkynning um hundinn í Hong Kong sé eina tilfellið sem tilkynnt hafi verið til Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar. Að svo stöddu sé ekki talin ástæða til að fólk í sóttkví komi gæludýrunum sínum í gæslu annars staðar.


Tengdar fréttir

Lýstu yfir neyðarástandi í Kaliforníu

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Kalíforníuríki í Bandaríkjunum vegna kórónuveirunnar en í gær dó fyrsti Kaliforníubúinn úr sjúkdómnum, sjötíu og eins árs gamall maður í Sacramento.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×