Það lið sem tryggir sér bikarmeistaratitilinn í fótboltanum í sumar fær ekki lengur farseðil í aðra umferðina í forkeppni Evrópudeildarinnar eins og áður. UEFA hefur ákveðið að breyta listanum sem segir á hvaða stigi keppninnar félög hefja leik í Evrópudeildinni fyrir keppnistímabilin 2012-2015. Þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ.
FH tryggði sér bikarmeistaratitilinn síðasta sumar og verða því síðustu íslensku bikarmeistararnir sem fá að byrja í annarri umferð. Frá og með árinu 2012 munu því öll þrjú íslensku liðin í Evrópudeildinni hefja leik á sama tíma það er í fyrstu umferð forkeppninnar.
Engin breyting verður í Meistaradeildinni, Íslandsmeistararnir munu eins og hingað til hefja leik í 2. umferð forkeppninnar.
Breiðablik tekur þátt í forkeppni Meistaradeildarinnar í ár en auk FH munu ÍBV og KR taka þátt í forkeppni Evrópudeildarinnar.
