Fótbolti

Sancho gæti lokast inni hjá Dortmund ef spilað verður fram í júlí

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sancho hefur skorað fjórtán mörk og lagt upp 16 í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Sancho hefur skorað fjórtán mörk og lagt upp 16 í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu. vísir/getty

Það gæti verið erfitt fyrir Jadon Sancho, unga Englendinginn í liði Dortmund, að komast burt frá þýska félaginu ef spilað verður í ensku og þýsku úrvalsdeildinni inn í júlímánuð.

Frá þessu greinir Kieran Maguire, sérstakur áhugamaður um fjármál í fótbolta, í samtali við Sky Sports en forráðamenn Dortmund komu fram á dögunum og sögðu frá því að þeir gætu selt Sancho í sumar. Þó ekki á neinu gjafaverði.

„Ég held að þetta hafi ekki áhrif á þá sem hafi nú þegar ákveðið að skipta um lið. Ef hins vegar tímabilið verður framlengt, þá held ég að það geti valdið vandræðum,“ sagði fjármálaspekingurinn.

„Þú munt vera með leikmenn sem renna út af samningi 30. júní í flestum atvinnumannadeildum Evrópu. Þú gætir verið með leikmann eins og Sancho, sem hefur spilað frábærlega, og hefur verið orðaður við stórliðin í ensku úrvalsdeildinni. Hann gæti þá lent í vandræðum ef tímabilið í Þýskalandi verði lengt.“

„Þýski boltinn gæti haldið áfram inn í júlí eða ágúst og hann horfir til Man. United eða Chelsea eða þeirra liða sem hann hefur verið orðaður við. Hann vildi væntanlega að þau skipti myndu gerast í júlí eða ágúst. Það gæti valdið honum áhyggjum því eins og allir fótboltamenn vita ertu bara einni tæklingu frá erfiðum meiðslum eða fótbroti. Það verður í huga leikmanna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×