Erlent

Ofbeldisverk Kosovo-Albana fyrir dóm

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Stytta af hetju Fánar Kosovo og Albaníu blakta fyrir aftan styttu af félaga úr Frelsisher Kosovo í höfuðborginni Pristina.fréttablaðið/AP
Stytta af hetju Fánar Kosovo og Albaníu blakta fyrir aftan styttu af félaga úr Frelsisher Kosovo í höfuðborginni Pristina.fréttablaðið/AP
Evrópusambandið hyggst setja á stofn alþjóðlegan dómstól sem fær það hlutverk að fjalla sérstaklega um ofbeldisverk sem Kosovo-Albanar frömdu í stríði þeirra við Serba á árunum 1998 og 1999.

Með þessu viðurkennir Evrópusambandið í raun að Vesturlöndum hafi ekki tekist að draga albanska bandamenn sína til ábyrgðar fyrir stríðsglæpi.

Albanskir uppreisnarmenn í Kosovo nutu óskoraðs stuðnings Vesturlanda í baráttu sinni fyrir því að segja skilið við Serbíu og stofna sjálfstætt ríki.

Serbar hafa frá upphafi sætt mikilli gagnrýni fyrir stríðsglæpi sem þeir frömdu í stríðinu, en Kosovo-Albanir hafa ekki fyrr en á seinni árum verið krafðir um reikningsskil gerða sinna. Þeir hafa meðal annars verið sakaðir um að hafa stundað sölu á líffærum úr fólki, sem einfaldlega var látið „hverfa“.

Kosovo lýsti yfir sjálfstæði árið 2008 og hafa meira en 100 ríki viðurkennt ríkið, en þó hvorki Serbar né Rússar.

Dómstóllinn á að hefja störf á næsta ári. Hann verður að formi til staðsettur í Kosovo þótt starfsemin verði að mestu í Hollandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×