Erlent

Fáir flóttamenn vildu fara heim gegn peningagreiðslu

Aðeins tveir af þeim 150 íröksku flóttamönnum sem vísað hefur verið úr landi í Danmörku hafa samþykkt að snúa aftur til heimalands síns. Fá þeir rúma hálfa milljón í greiðslu frá dönskum yfirvöldum. Sautján aðrir hafa lýst yfir áhuga á að fara heim gegn peningagreiðslu.

Yfirvöld í Danmörku boðuðu til sértaks kynningarfundar í dag fyrir þá 150 íröksku flóttamenn sem vísað hefur verið úr landi. Hafa dönsk stjórnvöld boðið þeim um 550 þúsund íslenskar krónur í greiðslu fyrir að snúa aftur heim. Þá býðst þeim einnig að stunda nám í Danmörku í sex til níu mánuði og áframhaldandi nám í Írak. Fá þeir námsstyrk upp á rúmar 400 þúsund krónur og að auki um 150 þúsund krónur á hvert barn.

Tveir samþykktu að loknum fundi að fara heim gegn peningagreiðslu. Hafa þeir mánuð til að yfirgefa Danmörku. Þá lýstu 17 aðrir yfir áhuga en voru ekki tilbúnir til að skrifa undir samning þessa efnis. Í öllum tilvikum var um að ræða einstæða karlmenn. Á fundinum lýsti enginn yfir áhuga á að fá námsstyrk frá dönskum stjórnvöldum gegn því að fara heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×