Erlent

Sjálfsstæðissinnum spáð naumum sigri

Alex Salmond Leiðtogi skoskra aðskilnaðarsinna vill fá að sýna hvað Skotar geta gert, án afskipta Englendinga.
Alex Salmond Leiðtogi skoskra aðskilnaðarsinna vill fá að sýna hvað Skotar geta gert, án afskipta Englendinga. MYND/AFP

Bretland, AP Í þessari viku eru liðin 300 ár frá því Skotland og England sameinuðust svo úr varð Stóra-Bretland. Flokkur skoskra þjóðernissinna, SNP, sem berst fyrir sjálfstæði Skotlands, gæti sem hægast orðið sigurvegari í þingkosningunum sem haldnar verða í Skotlandi í dag.

Leiðtogi SNP, Alex Salmond, leggur alla áherslu á að flokkurinn fái nægan styrk á þinginu til að geta sýnt það næsta kjörtímabilið að hann sé fær um að stjórna landinu.

„Þetta snýst um að sýna hvað við getum gert í stjórn,“ segir hann. „Þá getum við, árið 2010, beðið kjósendur í Skotlandi um umboð í þjóðaratkvæðagreiðslu til að taka frekari skref í átt að sjálfstæði.“

Skoska dagblaðið The Scotsman birti í gær skoðanakönnun sem spáir SNP töluverðum sigri, þótt heldur hafi fylgi hans minnkað síðan í síðustu könnun fyrir fimm vikum.

Samkvæmt nýju könnuninni fær SNP 43 þingsæti en Verkamannaflokkurinn 42. Frjálslyndir demókratar yrðu síðan þriðji stærsti flokkurinn með 23 þingmenn en Íhaldsflokkurinn aðeins 17. Græningjar fá svo eitt þingsæti og aðrir flokkar samtals þrjá.

Á skoska þinginu sitja 129 þingmenn þannig að meirihlutastjórn þarf að hafa stuðning 65 þingmanna hið minnsta. SNP þyrfti því væntanlega að fá Frjálslynda flokkinn í lið með sér til að geta myndað stjórn, en hingað til hafa Frjálslyndir verið í meirihlutasamstarfi með Verkamannaflokknum.

Fyrir Verkamannaflokkinn yrðu það töluverð tíðindi að annar stjórnmálaflokkur fái fleiri atkvæði, því Verkamannaflokkurinn hefur fengið flest atkvæði flokka í öllum kosningum sem haldnar hafa verið í Skotlandi í meira en hálfa öld.

Það gæti orðið sérlega vandræðalegt fyrir arftaka Tonys Blair forsætisráðherra ef Verkamannaflokknum farnast illa í Skotlandi. Um allt Bretland er reyndar stór kosningadagur í dag því kosið er til sveitarstjórna og úrslitin gætu haft töluverð áhrif á stöðu breska Verkamannaflokksins og ríkisstjórnar Blairs.

Í Wales er einnig kosið til þings, sem hefur takmarkað heimastjórnarvald líkt og í Skotlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×