Erlent

Hampa lögleiðingu hampsins í Washington

Áhugafólk um lögleiðingu kannabisefna fagnaði á viðeigandi hátt í Seattle. Þar á meðal var þessi herramaður, sem kallaður er Prófessor Gizmo.
Áhugafólk um lögleiðingu kannabisefna fagnaði á viðeigandi hátt í Seattle. Þar á meðal var þessi herramaður, sem kallaður er Prófessor Gizmo. Fréttablaðið/AP
Lög um lögleiðingu kannabisefna tóku gildi í Washington-ríki í Bandaríkjunum í gær og komu hundruð manna saman af því tilefni undir Geimnálinni í Seattle og nýttu sér þetta nýfengna frelsi. Íbúar ríkisins samþykktu lögin í almennri atkvæðagreiðslu í síðasta mánuði, en hið sama gerðu íbúar Colorado og eru þetta einu tvö ríkin þar sem almenn neysla er leyfð. Í Colorado taka lögin gildi eftir áramót.

Nú fyrst um sinn er fólki yfir 21 árs heimilt að neyta kannabisefna innandyra og hafa allt að 30 grömm undir höndum. Nánari útfærsla verður sett í lög innan tíðar, en þau munu fela í sér reglugerðir fyrir framleiðslu, vinnslu og sölu efnanna, og leggst 25 prósenta skattur á arð á hverju stigi.

Er áætlað að tekjur ríkisins gætu numið hundruðum milljóna dala árlega.

Kannabisefni eru þó enn bönnuð samkvæmt alríkislögum, þannig að alríkislögreglan gæti handtekið fólk fyrir að eiga eða selja efnin.

Dómsmálaráðuneytið sagði ekkert hafa breyst í þeim málum en hefur þó ekki gefið nokkuð út um hvort reynt verði að ógilda lögin.

Fleiri hópar gátu fagnað í Washington í gær, þar sem hjónabönd einstaklinga af sama kyni voru einnig leyfð. Mynduðust því langar biðraðir við skrifstofur sýslumanna.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×