Innlent

Spyr hvernig hægt verði að ferðast innan­lands með ferða­sjóðinn fastan í ferð sem ekki verður farin

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. vísir/Egill

„Það er hreint ótrúlegt að einhverjum þyki bara í lagi að ganga á stjórnarskrárvarinn rétt fólks og vilji skikka fólk til að gerast lánveitendur ferðaskrifstofa að þeim forspurðum, vaxtalaust og með óvissu um endurgreiðslu,“ skrifar Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna í athugasemd við færslu Jóhannes Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, þar sem hinn síðarnefndi kallar eftir því að frumvarp um rétt ferðaskrifstofa til að endurgreiða viðskiptavinum í formi inneignarnóta.

Í pistli Jóhannesar kallaði hann eftir því að umrætt frumvarp yrði samþykkt sem fyrst ella gæti komið til gjaldþrota ferðaskristofa. Skaut hann á Neytendasamtökin, sem lagst hafa gegn frumvarpinu, í leiðinni, það væri ekki í hag neytenda að ferðaskrifstofur verði gjaldþrota.

Breki brást við pistlinum með því að rita athugasemd við færsluna þar sem hann segir frumvarpið ekki til þess fallið að vekja traust á ferðaskrifstofum.

„Hvernig eiga neytendur að geta treyst ferðaskrifstofum hér eftir ef „go-to" aðgerðin verður að heimta afturvirkar lagabreytingar til að svína á viðskiptavinum sínum?“

Þá segir hann að Neytendasamtökin hafi vissulega skilning á erfiðri stöðu ferðaskrifstofa, aðrar leiðir væru hins vegar heppilegri til þess að glíma við vanda þeirra, frekar en að varpa honum yfir á viðskiptavini þeirra.

„[Þ]ess vegna hafa Neytendasamtökin í um tvo mánuði velt upp ýmsum lausnum sem ekki stangast á við stjórnarskrá. Þar á meðal nokkurskonar útgáfu af dönsku leiðinni, þar sem ferðaskrifstofur geta fengið lán til að greiða út lögbundnar kröfur sínar. Með þeirri lausn fara saman hagsmunir Samtaka aðila í ferðaþjónustu og Neytendasamtakanna, því hvernig á fólk annars að geta ferðast innanlands í sumar ef ferðasjóðurinn er fastur í ferð sem verður ekki farin og inneignarnótu sem nýtist ekki fyrr en eftir dúk og disk?“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×