Innlent

„Ósiðlegt og ætti með réttu að vera ólöglegt“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Drífa Snædal er forseti ASÍ.
Drífa Snædal er forseti ASÍ. Vísir/Egill

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) gagnrýnir fyrirtækið Össur harðlega fyrir að nýta sér hlutabótaleið stjórnvalda skömmu eftir að eigendur fyrirtækisins fengu greiddan 1,2 milljarða króna í arð vegna hagnaðar síðasta árs.

Greint var frá því á vef Ríkisútvarpsins í gær að á annað hundrað starfsmenn Össurar væru í hlutastarfi og að fyrirtækið væri að nýta sér úrræði stjórnvalda í hlutabótaleiðinni.

165 starfsmenn eru þannig í hálfu starfi og greiðir ríkið 50% launakostnaðarins á móti fyrirtækinu. Hlutabótaleiðin er úrræði sem sett var á laggirnar til þess að bregðast við efnahagsþrengingum vegna kórónuveirufaraldursins.

Í ályktun miðstjórnar ASÍ sem send var fjölmiðlum nú síðdegis er það áréttað að opinber stuðningur til fyrirtækja vegna áhrifa Covid-19 eigi „ekki að vera til þess gerður að fyrirtæki sem ekki þurfa á honum að halda vaði í sameiginlega sjóði samfélagsins að vild.

Fram hefur komið að Össur ehf. hafi ákveðið að nýta sér hlutabótaleiðina örskömmu eftir að fyrirtækið greiddi eigendum sínum 1,2 milljarða króna í arð. Slíkt athæfi er ósiðlegt og ætti með réttu að vera ólöglegt,“ segir í ályktun miðstjórnar.

Þar segir jafnframt að ASÍ hafi „ítrekað kallað eftir því að stjórnvöld setji skýr skilyrði við opinberum stuðningi en slíkar kröfur eru í samræmi við ráðleggingar Alþjóðavinnumálstofnunarinnar, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og OECD.

Meðal skilyrða sem ASÍ hefur kallað eftir er að fyrirtæki hafi nýtt sér eigin bjargir, þau undirgangist skilyrði um að greiða ekki út arð til tveggja ára eftir að þau njóta fyrirgreiðslu og að fyrirtækin eða eigendur þeirra séu ekki skráð í skattaskjólum. Stjórnvöld hafa brugðist þeirri skyldu sinni að tryggja hagsmuni almennings og komandi kynslóða. Nú er mál að linni.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.