Erlent

Sádar sakaðir um að hafa brotist inn í síma Amazon-eigandans

Kjartan Kjartansson skrifar
Bezos er einn ríkasti maður heims, Auk Amazon á hann meðal annars bandaríska blaðið Washington Post.
Bezos er einn ríkasti maður heims, Auk Amazon á hann meðal annars bandaríska blaðið Washington Post. Vísir/EPA
Rannsakandi á vegum Jeffs Bezos, eiganda Amazon, fullyrðir að útsendarar Sádi-Arabíu hafi hakkað sig inn í síma hans og lekið gögnum úr honum. Bandarískt slúðurblað birti fréttir um framhjáhald Bezos og vitnaði meðal annars til textaskilaboða sem hann og hjákonan skiptust á.

Bezos sakaði slúðurblaðið National Enquirer um að beita sig kúgun í febrúar. Fullyrti hann að starfsmenn blaðsins hefðu hótað að birta vandræðalegar myndir af honum nema hann segði opinberlega að pólitískar ástæður væru ekki ástæða umfjöllunar þess. Bezos og eiginkona hans skildu skömmu áður en umfjöllun National Enquirer birtist.

Útgefandi National Enquirer er vinur Donalds Trump Bandaríkjaforseta til fjölda ára en Trump hefur verið uppsigað við Bezos, meðal annars vegna þess að Amazon-stjórinn á dagblaðið Washington Post. Það er einn af þeim fjölmiðlum sem forsetinn hefur ítrekað sakað um að flytja „falsfréttir“ þegar það birtir umfjallanir sem eru honum óþægilegar. Útgefandi slúðurblaðsins hefur ítrekað beitt því til að hjálpa Trump, meðal annars með því að kaupa réttinn á vandræðalegum frásögnum um hann og sitja síðan á þeim.

Nú segir Gavin de Becker, rannsakandi sem Bezos réði til að komast að því hvernig National Enquirer komst yfir einkaskilaboð hans, að hann og samstarfsmenn hans álykti með mikilli vissu að Sádar hafi haft aðgang að síma Bezos og komist þannig yfir einkaupplýsingar hans. Þeir hafi afhent bandarískum alríkisyfirvöldum niðurstöður sínar.

Í grein sem de Becker skrifaði á vefsíðuna Daily Beast í gær tengdi hann símainnbrotið og gagnalekann við umfjöllun Washington Post um morðið á Jamal Khashoggi, sádiarabíska blaðamanninnum sem var drepinn á ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl í október. Khashoggi skrifaði pistla fyrir bandaríska blaðið.

Bandaríska leyniþjónustan telur líklegt að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu og raunverulegur leiðtogi, hafi skipað fyrir um morðið á Khashoggi sem var gagnrýninn á stjórnvöld í heimalandinu. Því hafa Sádar neitað og Trump-stjórnin hefur tekið þær neitanir gildar.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að sádiarabísk yfirvöld hafi enn ekki tjáð sig um ásakanir de Becker. Þau höfnuðu aðild að umfjölluninni um Bezos í febrúar.


Tengdar fréttir

Ríkasti maður heims og eiginkona að skilja

Jeff Bezos, forstjóri vefrisans Amazon og ríkasti maður heims, tilkynnti í dag að hann og McKensie Bezos, eiginkona hans til fjölda ára ætli sér að skilja.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.