Utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, Adel al-Jubeir, mætti í viðtöl í Bandaríkjunum í gær og þvertók fyrir að yfirvöld í landinu hefðu eitthvað komið nálægt lekanum en um er að ræða textaskilaboð á milli Bezos og hjákonu hans Lauren Sánchez og vandræðalegar myndir af þeim tveimur.
„Þetta er eitthvað sem er á milli Bezos og blaðsins. Við höfðum ekkert að gera með þetta. Þetta hljómar eins og sápuópera í mínum eyrum,“ sagði al-Jubeir.
Sýni hvað ásakanir Bezos eru eldfimar
Að því er fram kemur í frétt Guardian sýnir það hversu eldfimar ásakanir Bezos hafa verið að háttsettur maður í ríkisstjórn Sádi-Arabíu sjái sig knúinn til þess að stíga fram og neita að haft nokkuð með lekann að gera.Bezos er stofnandi Amazon og eigandi bandaríska blaðsins Washington Post. Í bloggfærslu síðastliðinn fimmtudag sakaði hann National Enquirer um að hafa reynt að kúga sig til að hann myndi hætta rannsókn á því hvernig einkaskilaboðunum og myndunum var lekið til blaðsins.
Sjá einnig:Ríkasti maður heims sakar götublað um kúgun með vandræðalegum myndum
Sagði Bezos að blaðið hefði hótað því að birta kynferðislegar myndir af honum og Sánchez en National Enquirer er í eigu útgáfufyrirtækisins American Media Incorporated (AMI) undir stjórn David J. Pecker.
Í bloggfærslunni benti Bezos á náið samband Donald Trump, Bandaríkjaforseta, við AMI en milljarðamæringurinn hefur reglulega verið skotspónn forsetans. Þá benti Bezos einnig á samband AMI við ríkisstjórnina í Sádi-Arabíu.
Elkan Abramowitz, lögfræðingur AMI, neitaði einnig fyrir það í sjónvarpsviðtali í gær að Sádi-Arabía hefði eitthvað haft með lekann að gera.
National Enquirer hefði komist yfir efnið í gegnum heimildarmann en hann væri ekki pólitískur. Þá hefðu samningaviðræður AMI við Bezos nú ekkert að gera með kúgun eða hótanir.