Þegar netverjar bentu Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á bíla sem var lagt ólöglega sagði fulltrúi lögreglunnar að þrátt fyrir að það mætti ekki leggja ólöglega „hljóti að vera ákveðið svigrúm meðan svona er“ og vísaði til hálkunnar og snævarins sem hefur einkennt veðrið undanfarna daga.
Fulltrúinn sagði að eigendur bíla væru sektaðir „hægri-vinstri“. Ökumönnum finnist of mikið sektað og gangandi finnist ekki nógu mikið gert.
Gísli Marteinn Baldursson dagskrárgerðarmaður var fremur ósáttur við svarið og sagði að lögreglan mætti ekki reyna að fara einhvern meðalveg þegar kæmi að lögum. „Munurinn er sá að annar hópurinn er að óska eftir því að það sé ekki gert. Maður skyldi ætla að það vefðist ekki fyrir ykkur á hvort hópinn ætti að hlusta,“ skrifar Gísli.

Umferðarlögin í gildi allan sólahringinn og árið um kring
Inntur eftir viðbrögðum segir Ómar Smári Ármannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn að umferðarlögin séu í gildi allan sólarhringinn og allt árið um kring. Þó geti komið upp óvenjulegar aðstæður og tímabundið ástand líkt og verið hafa undanfarna daga.Hann segir að lögreglan sjái ávallt til þess að ökutæki sé fjarlægt ef það er hættulegt gangandi vegfarendum, því lagt nálægt gatnamótum eða í veg fyrir gangandi.
Ómar Smári segir að lögregla hafi fyrst samband við eiganda bílsins og fari fram á að hann fjarlægi bílinn. Ef ekki náist í eiganda, eða ef hann verður af einhverjum ástæðum ekki við kröfum lögreglunnar, þurfi að láta draga hann í burtu sem hafi mikinn kostnað í för með sér fyrir eigandann.
Ómar Smári bendir á að stundum sjái fólk bíla sem hefur verið lagt ólöglega og dragi samstundis þá ályktun að lögregla hafi ekkert aðhafst í málinu því bílarnir standi þar enn. Hann segir aftur á móti að oft og tíðum sé lögreglan þá og þegar búin að leggja á sekt og ákveðið ferli farið að stað.