Enski boltinn

Chilwell greinir frá því sem Pep sagði við hann

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ben Chilwell.
Ben Chilwell. vísir/getty
Enski landsliðsbakvörðurinn Ben Chilwell er sterklega orðaður við Man. City og það vakti líka mikla athygli í síðasta mánuði er stjóri City, Pep Guardiola, hvíslaði einhverju að Chilwell eftir leik City og Leicester.

Chilwell segir að það hafi ekki verið neitt stórkostlegt leyndarmál þar í gangi og að hann sé ekki að hugsa um neitt annað en að spila fyrir Leicester næsta vetur.

„Það var mjög fallegt af svona góðum stjóra að segja að ég væri góður leikmaður. Hann sagði bara við mig að ég væri mjög hæfileikaríkur og ætti að halda áfram á sömu braut. Hlaupa upp og niður kantinn. Það var nú allt og sumt. Svo var hann farinn,“ segir Chilwell en það er talið ansi líklegt að City geri tilboð í hann í sumar.

Bakvörðurinn er orðinn 22 ára gamall og hefur tekið miklum framförum síðustu mánuði. Hann er nú búinn að spila sex landsleiki fyrir enska landsliðið. Hann verður auðvitað í enska liðinu á fimmtudag er það spilar í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×