Erlent

Bítlar ISIS í haldi Bandaríkjanna

El Shafee Elsheikh og Alexanda Amon Kotey.
El Shafee Elsheikh og Alexanda Amon Kotey. AP/Hussein Malla
Tveir breskir vígamenn Íslamska ríkisins sem kallaðir hafa verið „Bítlarnir“ eru nú í haldi Bandaríkjamanna. Þeir hafa verið fluttir úr haldi sýrlenskra Kúrda vegna innrásar Tyrkja í norðausturhluta Sýrlands.

Mennirnir tveir, sem heita El Shafee Elsheikh og Alexanda Amon Kotey, tilheyrðu alræmdum hópi erlendra vígamanna Íslamska ríkisins sem pyntuðu og myrtu vestræna gísla samtakanna. Meðal annars myrtu þeir blaðamenn frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Japan, auk þess sem þeir myrtu hjálparstarfsmenn og sýrlenska hermenn sem handsamaðir voru af hryðjuverkasamtökunum. Aftökurnar voru notaðar í áróðursmyndböndum samtakanna.

Leiðtogi hópsins, Mohammed Emwazi, eða Jihadi John, var felldur í loftárás árið 2015 og sá fjórði Aine Davix var handtekinn í Tyrklandi. Þeir voru kallaðir Bítlarnir vegna bresks hreims þeirra.

Samkvæmt heimildum Sky News voru mennirnir fluttir úr fangelsi af ótta við að þeir myndu flýja þaðan. Bandaríkjamenn munu einnig hafa flutt fleiri alræmda fanga úr fangelsum sýrlenskra Kúrda.

Yfirvöld Bretlands hafa verið rög við að taka við mönnunum tveimur og hafa þeir verið sviptir breskum ríkisborgararétti þeirra.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.