Mótmælendur sáust þar veifa breska fánanum, syngja þjóðsöng Breta og hrópa slagorð til að vekja athygli á kröfum þeirra um lýðræðisumbætur á sjálfstjórnarsvæðinu sem Bretar afhentu Kínverjum árið 1997.
Atburðurinn kemur í kjölfar fjöldamótmæla í gær þar átök brutust út milli andstæðra fylkinga lýðræðisumbótasinna og hóps fólks hliðhollum stjórnvöldum í Beijing. Sá síðarnefndi sást veifa kínverska fánanum og kalla slagorð á borð við „styðjum lögregluna.“
Aukin harka hefur færst í samskipti lögreglu og mótmælenda undanfarnar vikur en mótmælendur hafa gagnrýnt lögreglu og sakað hana um að beita lögregluofbeldi. Átök brutust út milli fylkinganna tveggja í gær þegar fólk úr andstæðum fylkingum létu höggin dynja á andstæðingum sínum og slógu þá með regnhlífum áður en lögreglan steig inn í og aðskildi fylkingarnar.
Mótmælin í gær mörkuðu fimmtánda laugardaginn í röð sem borgin er undirlögð af mótmælendum og átökum þeirra við lögreglu. Á þeim tíma hefur spenna milli fyrrnefndra fylkinganna stigmagnast.
Mótmælin hófust upphaflega vegna framsalsfrumvarps stjórnvalda í Hong Kong, sem hefði leyft framsal á íbúum borgarinnar yfir til Kína. Stjórnvöld urðu við einni helstu kröfu mótmælendanna í byrjun mánaðar þegar stjórnarliðar lofuðu að draga framsalsfrumvarpið formlega til baka. Sú aðgerð virðist ekki hafa dugað til að róa mótmælendur, sem hafa einnig krafist lýðræðisumbóta, afsagnar Carrie Lam, æðsta stjórnanda Hong Kong, og sjálfstæðrar rannsóknar á meintu lögregluofbeldi.