Enski boltinn

Giggs: Manchester United ætti að fastráða Solskjaer en segja engum frá því

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjaer og Ryan Giggs fagna marki með Manchester United.
Ole Gunnar Solskjaer og Ryan Giggs fagna marki með Manchester United. Geyty/Matthew Peters
Ole Gunnar Solskjaer á að verða framtíðarknattspyrnustjóri Manchester United að mati Ryan Giggs, leikjahæsta mannsins í glæstri sögu félagsins.

Ryan Giggs var fyrstur fyrrum lærisveina Sir Alex Ferguson til að reyna sig sem stjóri Manchester United en Giggs tók tímabundið við liðinu þegar David Moyes var rekinn árið 2014.

United réð síðan Louis van Gaal og Giggs varð aðstoðarmaður hans. Giggs segir að Van Gaal hafi sagt við Ed Woodward að „Ryan Giggs mun síðan taka við af mér“ þegar þriggja ára samningur Hollendingsins myndi klárast. Ekkert varð hins vegar að því þar sem United réði Jose Mourinho.

Ryan Giggs hafi ekki áhuga á því að taka við liðinu af Jose Mourinho. „Nei í rauninni ekki. Þetta hefði kannski litið öðruvísi út ef ég hefði ekki verið landsliðsþjálfari Wales,“ sagði Giggs við Guardian.

„Ole hefur skilað frábæru starfi. Ég hef auðvitað verið í sambandi við hann en hann hefur bæði gefið leikmönnum frelsi sem og standa sig vel í taktík. Sjálfstraustið er mikið og það eru allir farnir að brosa,“ sagði Giggs.*





„Við höfum verið of lengi með einhverja tilraunastarfsemi í gangi hjá félaginu. Þegar þú ert með einhvern sem þekkir félagið vel, er góður í taktík og er með leikmennina með sér þá ertu kominn vel af stað. Það verða einhverjar hindranir á veginum en flestir stuðningsmenn eru núna að ímynda sér hvað hann hefði gert með alla þá peninga sem var eytt í leikmenn síðustu árin,“ sagði Giggs.

Ryan Giggs vill að Norðmaðurinn fái tíma og frið til að undirbúa næsta tímabil og að það sé enginn ástæða til að tilkynna það strax að hann verði fastráðinn sem knattspyrnustjóri Manchester United.

„Skipulagið er mikilvægara en tilkynningin. Sjáið bara Guardiola. Hann fékk leikmennina sem hann vildi til Manchester City, ári áður en hann tók við. Svo ef að þetta á að vera Ole þá á félagið að halda því leyndu og byrja að skipuleggja sig. Vandamál okkar síðustu ár er að við erum alltaf að elta,“ sagði Giggs.

„Við þurfum að finna þessa tvo eða þrjá leikmenn sem við þurfum á að halda svo við getum farið að vinna ensku úrvalsdeildina og Meistaradeildina aftur,“ sagði Giggs.

Manchester United mætir Chelsea á Stamford Bridge í London í kvöld í sextán liða úrslitum enska bikarsins. Leikurinn hefst klukkan 19.30 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×