Erlent

Kaldasti dagur Delí síðan mælingar hófust

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Á þessari mynd sést vel sú mengunarslikja sem liggur yfir borginni.
Á þessari mynd sést vel sú mengunarslikja sem liggur yfir borginni. Vísir/AP

Íbúar Indversku borgarinnar Delí upplifa nú kaldasta dag í sögu borgarinnar, eða í það minnst síðan mælingar hófust árið 1901. Kuldabylgja gengur nú yfir norðurhluta Indlands.

Þykk mengunarþoka liggur yfir borginni, en hæsti hiti sem mældist í borginni í dag var 9,4 gráður. Fyrra kuldamet var sett 2. janúar 2013, þegar hitinn mældist 9,8 gráður.

Hámarkshiti í norður-Indlandi mældist víða um 10 gráðum lægri en venjulegt telst á þessum árstíma, ef marka má fréttir BBC af kuldanum.

Hjálparskýli borgarinnar, sem eru nálægt 200 talsins, eru flest yfirfull af fólki sem ekki á í önnur hús að venda, en næturhiti hefur verið á milli einnar og þriggja gráða síðustu daga.

Þessar tölur kunna ekki að virðast ýkja öfgakenndar í augum íslenskra lesenda, en indversk heimili eru mörg hver ekki í stakk búin til þess að standa af sér kulda eins og þann sem nú gengur yfir norðurhluta landsins, ef tekið er mið af einangrun og öðru slíku.

Þá hefur 30 lestaferðum og meira en 450 flugferðum til og frá Delí verið frestað sökum lélegs skyggnis, en það helgast af áðurnefndri mengunarþoku sem liggur nú yfir borginni. Um ellefu milljónir manna búa í Delí.

Veðurfræðingar í Indlandi gera ráð fyrir að hitastigið haldist lágt, í það minnsta út morgundaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×