Erlent

Ghani virðist hafa unnið nauman sigur í Afganistan

Kjartan Kjartansson skrifar
Ghani forseti stillir sér upp fyrir mynd á kjördag í september.
Ghani forseti stillir sér upp fyrir mynd á kjördag í september. Vísir/EPA

Bráðabirgðaúrslit afgönsku forsetakosninganna sem fóru fram í lok september benda til þess að Ashraf Ghani, sitjandi forseti, hafi unnið nauman sigur. Ásakanir hafa verið um stórfelld kosningasvik og varar sjálfstæð kjörstjórn landsins við því að úrslitin kunni að breytast.

Ghani virðist hafa fengið 50,64% atkvæða. Helsti andstæðingur hans, Abdullah Abdullah, hlaut 39,52%, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Halda þarf aðra umferð kosninganna fái enginn frambjóðandi yfir fimmtíu prósent atkvæða. Abdullah segist ekki samþykkja bráðabirgðaniðurstöðurnar og sakaði kjörstjórnina um að taka ekki á kosningasvikum.

Kosningarnar fóru fram 28. september. Kjörstjórnin hóf endurtalningu þúsunda atkvæða í síðasta mánuði vegna þess sem hún sagði misfellur í kerfum hennar. Abdullah andmælti endurtalningunni og sagði hana tilraun til að finna fleiri atkvæði fyrir Ghani en því hefur stjórnin hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×