Erlent

Norskri konu vísað frá Indlandi vegna mótmæla

Kjartan Kjartansson skrifar
Nýju lögunum um ríkisborgararétt hefur verið mótmælt harðlega á Indlandi.
Nýju lögunum um ríkisborgararétt hefur verið mótmælt harðlega á Indlandi. Vísir/EPA

Indversk yfirvöld hafa skipað norskri ferðakonu að yfirgefa landið vegna þess að hún tók þátt í mótmælum gegn nýrra og umdeildra laga um ríkisborgararétt. Konan segir að lögreglumenn hafi fullvissað hana um að henni væri frjálst að taka þátt í mótmælunum.

Janne-Mette Johansson, sem er 71 árs gömul, birti mynd og stöðuuppfærslu á samfélagsmiðli um mótmæli í borginni Kochi á Þorláksmessu. Á myndinni sást hún með mótmælaspjald og í stöðuuppfærslunni sagði hún að mótmælendur segðu „það sem þarf að segja“, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Yfirvöld segja að með þessu hafi Johansson brotið gegn skilmálum landvistarleyfis hennar. Það heimili henni ekki að taka þátt í mótmælum. Johansson sagði við Times of India að hún hefði spurt lögreglumenn hvort hún mætti taka þátt í mótmælunum áður en hún slóst í hópinn.

Þýskum skiptinema var einnig vísað úr landi fyrir að taka þátt í tveimur mótmælaaðgerðum gegn borgaralögunum í vikunni. Stjórnarandstæðingar segja að brottvísanirnar setji blett á orðspor Indlands sem umburðarlynds lýðræðisríkis.

Lögin umdeildu voru samþykkt 11. desember. Andmælendur þeirra segja að þau mismuni múslimum. Þau auðvelda fólki sem tilheyrir minnihlutahópum frá nágrannaríkjum Indlands, Afganistan, Pakistan og Bangladess þar sem múslimar eru í meirihluta og settist að á Indlandi fyrir árið 2015 að fá ríkisborgararétt þar. Þetta telja gagnrýnendur laganna brjóta gegn stjórnarskrá Indlands um mismunun á grundvelli trúarbragða.

Að minnsta kosti 25 manns hafa látið lífið í mótmælunum gegn lögunum fram að þessu.


Tengdar fréttir

Harðnandi mótmæli á Indlandi

Mikill fjöldi Indverja hefur mótmælt af krafti síðustu daga eftir að þingið samþykkti umdeilt frumvarp um ríkisborgararétt fyrir innflytjendur aðra en múslima. Forsætisráðherrann segir málið snúast um að skýla ofsóttum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×