Erlent

Gagn­rýndur fyrir að endur­tísta tíst með nafni meints upp­ljóstrara

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump hefur ítrekað kallað eftir því að nafn uppljóstrarans verði gert opinbert.
Donald Trump hefur ítrekað kallað eftir því að nafn uppljóstrarans verði gert opinbert. Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti sætir nú mikilli gagnrýni af hálfu leiðtoga Demókrata og fleiri eftir að hann endurtísti tíst sem innihélt nafn meints uppljóstrara, kvörtun hvers leiddi til ákæruferlis þingsins gegn forsetanum.

BBC segir frá því að Trump hafi endurtíst tíst Twitter-notanda sem kallar sig @surfermom77 sem lýsir sér sem „100% Trump-stuðningsmanni“.

Tíst forsetans var síðar fjarlægt af Twitter-reikningi hans, en er þó enn að finna notist netverjar við beinan tengil á umrædda færslu.

Alríkislög í Bandaríkjunum kveða á um að vernd uppljóstrara verði tryggð komi þeir fram í upplýsingar sem sýna fram á misgjörðir af hálfu hins opinbera. Trump hefur hins vegar ítrekað kallað eftir því að nafn uppljóstrarans verði gert opinbert. 

Lögmenn umrædds uppljóstrara, sem sagður er starfa með leyniþjónustum Bandaríkjanna, hafa sagt skjólstæðing sinn vera í líkamlegri hættu vegna málsins, en forsetinn hefur þrátt fyrir það hvatt til þess að nafn mannsins verði opinberað.

Twitter-notandinn @surfermom77 hefur áður tíst efni gegn múslimum og dreift samsæriskenningum um að Barack Obama, forveri Trump í starfi, sé í raun og veru múslimi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×