Búist er við áframhaldandi norðlægri átt fram yfir helgi og sums staðar verður allhvasst eða hvasst. Þá má gera ráð fyrir éljagangi, einkum á norðanverðu landinu og á köflum austantil, en bjart með köflum sunnan- og vestanlands.
Þá kólnar smám saman og fremur kalt verður um helgina. Í næstu viku dregur svo úr frosti.
Óveðrið sem gengið hefur yfir landið síðustu sólarhringa virðist þannig vera að sigla sitt skeið í flestum landshlutum. Síðustu viðvaranirnar, gular, renna úr gildi nú í morgun um klukkan átta.
Viðvaranirnar eru í gildi á Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum. Enn er í gildi óvissustig vegna snjóflóðahættu á Mið-Norðurlandi.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag:
Norðlæg átt 5-13 m/s, skýjað og dálítil él á N- og A-landi. Bjart með köflum annars staðar, en stöku él syðst á landinu. Frost 5 til 15 stig.
Á laugardag:
Norðlæg átt og stöku él með N-ströndinni, annars víða bjart. Áfram kalt í veðri.
Á sunnudag og mánudag:
Stíf norðaustanátt með ofankomu, einna helst norðvestantil, en þurrt S-til á landinu. Minnkandi frost.
Á þriðjudag og miðvikudag:
Líkur á áframhaldandi norðlægri átt með éljum við N- og A-ströndina, en annars þurrt. Frost 0 til 8 stig, mildast við ströndina.