Innlent

Norðanátt ríkir áfram yfir kalda helgi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Spáð er ansi lágum hitatölum á landinu strax á morgun, föstudag.
Spáð er ansi lágum hitatölum á landinu strax á morgun, föstudag. Skjáskot/veðurstofa íslands

Búist er við áframhaldandi norðlægri átt fram yfir helgi og sums staðar verður allhvasst eða hvasst. Þá má gera ráð fyrir éljagangi, einkum á norðanverðu landinu og á köflum austantil, en bjart með köflum sunnan- og vestanlands.

Þá kólnar smám saman og fremur kalt verður um helgina. Í næstu viku dregur svo úr frosti.

Óveðrið sem gengið hefur yfir landið síðustu sólarhringa virðist þannig vera að sigla sitt skeið í flestum landshlutum. Síðustu viðvaranirnar, gular, renna úr gildi nú í morgun um klukkan átta.

Viðvaranirnar eru í gildi á Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum. Enn er í gildi óvissustig vegna snjóflóðahættu á Mið-Norðurlandi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:
Norðlæg átt 5-13 m/s, skýjað og dálítil él á N- og A-landi. Bjart með köflum annars staðar, en stöku él syðst á landinu. Frost 5 til 15 stig.

Á laugardag:
Norðlæg átt og stöku él með N-ströndinni, annars víða bjart. Áfram kalt í veðri.

Á sunnudag og mánudag:
Stíf norðaustanátt með ofankomu, einna helst norðvestantil, en þurrt S-til á landinu. Minnkandi frost.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Líkur á áframhaldandi norðlægri átt með éljum við N- og A-ströndina, en annars þurrt. Frost 0 til 8 stig, mildast við ströndina.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.