Erlent

Stefnir í stór­sigur Í­halds­flokksins sam­kvæmt út­göngu­spá BBC

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Boris Johnson, formaður Íhaldsflokksins.
Boris Johnson, formaður Íhaldsflokksins. EPA/PETER POWELL

Útgönguspá sem kynnt var núna klukkan 22 í breska ríkissjónvarpinu bendir til þess að Íhaldsflokkurinn hafi unnið hreinan meirihluta og stórsigur í bresku þingkosningum sem fram fóru í dag.

Útgönguspáin sýnir Íhaldsflokkinn með 368 þingsæti en 326 sæti þarf til þess að ná meirihluta í þinginu.

Verkamannaflokkurinn er með 191 þingsæti samkvæmt spánni og Skoski þjóðarflokkurinn 55. Frjálslyndir demókratar fá 13 þingmenn samkvæmt spánni.

Huw Edwards og Laura Keunssberg, fréttamenn BBC, sögðu að verði úrslit kosninganna eitthvað í líkingu við útgönguspána þá væri Íhaldsflokkurinn með mjög traustan meirihluta í þinginu. Verkamannaflokkurinn væri aftur á móti að upplifa alvarlegt og sögulegt tap.

Íhaldsflokknum tókst ekki að fá hreinan meirihluta á breska þinginu í kosningunum 2017, flokkurinn náði þá 317 þingsætum en Lýðræðislegi sambandsflokkurinn hefur varið ríkisstjórn flokksins gegn vantrausti.

Útgönguspáin bendir til þess að flokkurinn hafi nú bætt fjölda þingsæta við sig á meðan Verkamannaflokkurinn missir sæti miðað við kosningarnar 2017 þegar hann hlaut 232 sæti.

Í kosningavakt Guardian er farið yfir það hversu áreiðanlegar útgönguspárnar hafa verið. Undanfarin ár hafa þær verið mjög nálægt kosningaúrslitunum sjálfum.  

Árið 2017 sýndu útgönguspár að Íhaldsmenn myndi vanta 12 þingmenn til að ná meirihluta, þá vantaði átta og 2015 bentu spárnar til að Íhaldsflokkurinn myndi þurfa 10 þingmenn til að ná meirihluta en hann náði 12 manna meirihluta.

2010 og 2005 voru útgönguspárnar svo alveg í samræmi við kosningaúrslitin sjálf.

Hér fyrir neðan má fylgjast með beinni útsendingu frá kosningavöku Sky News.



Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×