Erlent

Forsætisráðherra Möltu segir af sér í skugga morðmáls

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Muscat hefur verið forsætisráðherra Möltu síðan 2013.
Muscat hefur verið forsætisráðherra Möltu síðan 2013. Vísir/Getty
Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, mun láta af embætti á nýju ári. Kallað hefur verið eftir afsögn hans í kjölfar morðs á maltneskri blaðakonu árið 2017. Einstaklingar með sterkt tengsl inn í ríkisstjórn Muscat eru grunaðir um aðild að morðinu.

Muscat tilkynnti um fyrirhugaða afsögn sínu í ríkissjónvarpi Möltu fyrr í dag. Þar sagðist hann ætla að biðja Verkamannaflokk Möltu, sem situr í ríkisstjórn, að velja eftirmann sinn strax í janúar.

Mótmælendur og gagnrýnendur forsætisráðherrans hafa kallað eftir afsögn hans vegna morðsins á rannsóknarblaðakonunni Daphne Caruana Galizia. Hún var myrt með bílsprengju árið 2017, en hún hafði meðal annars verið að fjalla um spillingarmál tengd maltneskum stjórnmálamönnum.

Muscat hefur setið í sæti forsætisráðherra síðan 2013, og unnið afgerandi sigur í tvennum kosningum í Evrópusambandsríkinu smáa.

Í gær var maltneski viðskiptajöfurinn Yorgen Fenech ákærður fyrir aðild að morðinu á Caruana Galizia. Hann er sagður hafa boðist  til þess að veita lögreglu upplýsingar um morðmálið í skiptum fyrir friðhelgi, en því tilboði hans var hafnað.


Tengdar fréttir

Þrír stjórnmálamenn sagt af sér á Möltu

Þrír hafa stigið til hliðar frá störfum fyrir maltnesku ríkisstjórnina. Talið er að afsagnirnar séu í tengslum við morðið á maltneska rannsóknarblaðamanninum Daphne Caruana Galizia í október 2017, þar á meðal tveir ráðherrar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×