Erlent

53 látnir af völdum mis­linga á Samóa­eyjum

Atli Ísleifsson skrifar
Búið er að hrinda af stað bólusetningarherferð á Samóaeyjum.
Búið er að hrinda af stað bólusetningarherferð á Samóaeyjum. AP
Alls hafa 53 látið lífið af völdum mislinga á Samóaeyjum síðustu vikurnar. Nærri öll sem hafa látist eru börn yngri en fjögurra ára.

Ástæða mislingafaraldursins á eyjunum er lágt hlutfall bólusettra, en UNICEF áætlar að einungis milli 28 og 40 prósent íbúa hafi verið bólusett þegar faraldurinn braust út.

Neyðarástand hefur verið í gildi á eyjunum frá miðjum nóvember þar sem skólum hefur verið lokað og bann lagt við fjöldasamkomur.

Alls hafa 3.728 einstaklingar greinst með mislinga frá því að faraldurinn braust út. Af þeim 53 sem hafa látist eru 49 börn yngri en fjögurra ára.

Búið er að hrinda af stað bólusetningarherferð á eyjunum, en frá 20. nóvember hafa rúmlega 58 þúsund manns, á aldrinum sex mánaða til sextugs, verið bólusett. Það er um þriðjungur íbúa eyjanna.

Samóa er að finna í Kyrrahafi, um þrjú þúsund kílómetrum norðaustur af Nýja-Sjálandi, eða um miðja vegu milli Nýja-Sjálands og Hawaii.

Mislingafaraldur hefur ekki einungis herjað á íbúa Samóaeyja, en UNICEF áætlar að um fimm þúsund manns hafi látist af völdum mislinga í Lýðveldinu Kongó það sem af er ári. Þá hafa greint tilfelli víða um heim og hafa bæði UNICEF og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin lýst yfir áhyggjum af fjölgun mislingatilfella í heiminum.


Tengdar fréttir

Mislingar í Kongó: 5 þúsund látin þar af 4.500 börn

Það sem af er ári hafa rúmlega fimm þúsund manns, þar af 4.500 börn yngri en fimm ára, látið lífið af völdum mislinga í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Í austurhluta landsins hefur á árinu geisað ebólufaraldur sem hefur leitt til rúmlega tvö þúsund dauðsfalla og fengið mikla alþjóðlega athygli.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.