Erlent

Danir ljúka við gerð landa­mæra­girðingar

Atli Ísleifsson skrifar
Alls hafa verið settir upp um 27.200 girðingarstólpar.
Alls hafa verið settir upp um 27.200 girðingarstólpar. Getty

Danir ljúka í dag við gerð 1,5 metra hárrar girðingar meðfram landamærum Danmerkur og Þýskalands. Dönsk stjórnvöld sögðu þörf á girðingunni til að verja danska svínastofninn frá sjúkdómum, en gagnrýnendur segja girðinguna ekki geta þjónað því hlutverki og vera táknræna aðgerð.

Í Danmörku er að finna um fimm þúsund svínabú sem flytja út um 28 milljónir svína á ári hverju, um helming útflutnings af dönskum landbúnaðarvörum og um fimm prósent af öllum útflutningi landsins.

Dönsk stjórnvöld sögðu þörf á girðingunni til að verja svínum frá afrískri svínaflensu sem hefur greinst í Evrópu á síðustu misserum.

Kostnaðurinn við gerð hinnar 70 kílómetra löngu girðingar, sem er að finna syðst á Jótlandi, er áætlaður um ellefu milljónir evra, um 1,5 milljarður íslenskra króna.

Í frétt DW segir að gagnrýnendur segi girðinguna vera sóun á almannafé og vinna gegn vandamáli sem sé ekki til staðar. Þá hafi umhverfissinnar lýst yfir áhyggjum af áhrifum girðingarinnar á vistkerfið á svæðinu. Aukinheldur þyki girðingin skýr birtingarmynd harðrar stefnu danskra stjórnvalda í innflytjendamálum.

Alls hafa verið settir upp um 27.200 girðingarstólpar við lagningu girðingarinnar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.