Innlent

Innflytjendur og landsbyggðarbörn standa verr að vígi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þó ber að nefna að jákvæð þróun hefur átt sér stað meðal þátttakenda af fyrstu kynslóð innflytjenda síðan í síðustu könnun.
Þó ber að nefna að jákvæð þróun hefur átt sér stað meðal þátttakenda af fyrstu kynslóð innflytjenda síðan í síðustu könnun. Vísir/vilhelm

Rúmlega helmingur innflytjenda sem tóku PISA-könnunina árið 2018 eru undir lágmarkshæfnimarki í lesskilningi. Þá standa unglingar á landsbyggðinni verr að vígi í öllum flokkum sem prófað var úr en jafnaldrar þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta sýna niðurstöður PISA-könnunarinnar sem birt var í dag. Könnunin var lögð fyrir 15 ára nemendur á Íslandi vorið 2018. Kannaður var lesskilningur og læsi á stærðfræði og náttúruvísindi.

Jákvæð þróun meðal fyrstu kynslóðar innflytjenda

Í niðurstöðunum er sérstaklega tekið fram að fjöldi innflytjenda meðal þátttakenda í PISA sé lítill á Íslandi. PISA sé því ekki besta tækið til að mæla námslega stöðu innflytjenda á Íslandi en geti engu að síður veitt ákveðnar vísbendingar.

Samkvæmt skilgreiningu OECD eru innflytjendur í PISA þeir nemendur sem eiga foreldra sem báðir eru fæddir utan landsins sem prófað er í. Þeir eru flokkaðir í annarrar kynslóðar innflytjendur, þ.e. þeir sem fæddust í landinu sem prófað er í, og fyrstu kynslóðar innflytjendur, sem fæddust erlendis.

Samtals flokkast 179 þeirra, eða 5,6% af heildarfjölda þeirra sem svöruðu, sem innflytjendur. Þar af eru 99 af fyrstu kynslóð og 80 af annarri kynslóð.

Sjá einnig: Mun lakari frammistaða í lesskilningi en á öðrum Norðurlöndum

Í niðurstöðunum sést að munur á frammistöðu innflytjenda og annarra þátttakanda í lesskilningi í PISA 2018 er töluverður og liggur á bilinu 69-79 stig (74 stig fyrir innflytjendur í heild). Svipaður munur, eða 68 stig, er á milli þeirra nemenda sem tala aðallega íslensku heima hjá sér og þeirra sem tala aðallega annað mál.

Rúmlega helmingur, eða 51,2% innflytjenda í heild, er jafnframt undir hæfniþrepi 2 og telst því ekki búa yfir lágmarkshæfni í lesskilningi. Hlutfallið er rúmlega tvöfalt hærra en hlutfall nemenda sem hafa engan erlendan bakgrunn (23,9%). Hlutfallið hefur lækkað um fimm prósentustig síðan í síðustu könnun PISA en breytingin er ekki marktæk.

Þó ber að nefna að jákvæð þróun hefur átt sér stað meðal þátttakenda af fyrstu kynslóð innflytjenda síðan í síðustu könnun því sá hópur skorar 31 stigi hærra 2018, sem er marktækur munur.
 

Stærðfræðilæsi hrakaði marktækt á Vesturlandi

Líkt og í fyrri könnunum PISA er talsverður munur á frammistöðu í lesskilningi í PISA 2018 eftir landshlutum og nemendur í Reykjavík og nágrenni standa sterkast að vígi. Nemendur á höfuðborgarsvæðinu standa einnig betur að vígi í hinum flokkunum tveimur, læsi á stærðfræði og náttúruvísindum, en nemendur á landsbyggðinni.

Munurinn á frammistöðu í lesskilningi á meðal nemenda á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landshlutum er 30 PISA-stig. Svipaður munur er á frammistöðu þessara hópa í læsi á náttúruvísindum og stærðfræði, eða 29 stig í báðum flokkum. Þá má sjá að frammistöðu hrakaði marktækt í stærðfræðilæsi í einum landshluta: Vesturlandi.

Hér að neðan má sjá niðurstöður könnunarinnar kynntar.

Klippa: Niðurstöður nýrrar PISA-könnunar kynntar


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.