Erlent

Íhuga að kalla Jóhannes fyrir dóm í Namibíu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jóhannes Stefánsson í þættinum Kveiki í gærkvöldi.
Jóhannes Stefánsson í þættinum Kveiki í gærkvöldi. RÚV
Líkur eru á því að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu sem kom Samherjaskjölunum svonefndu í hendur Wikileaks, verði kallaður fyrir dóm sem vitni í máli á hendur sex mönnum sem ákærðir hafa verið fyrir spillingu, fjársvik og mútuþægni. Þetta segir saksóknari í málinu í samtali við The Namibian.

Jóhannes var lykilstarfsmaður Samherja í Namibíu frá árin 2011 og 2016. Hann hefur í samtölum við Kveik og Al Jazeera lýst samskiptum sínum við embættismenn í Namibíu, þar á meðal tvo ráðherra sem eru á meðal ákærðu í málunum. Segist Jóhannes hafa að undirlagi forsvarsmanna Samherja tekið þátt í að bera fé á embættismenn í skiptum fyrir kvóta þar í landi.

Sjá einnig: Nýjar upptökur varpa ljósi á það hvernig Al Jazeera „fetaði í fótspor“ Samherja



Namibian hefur eftir Mörthu Imalwa saksóknara að embætti hennar hafi þegar sett sig í samband við íslensk stjórnvöld. Þar sem Jóhannes njóti verndar verði að fá vilyrði frá stjórnvöldum hér á landi áður en hægt verði að kalla hann formlega fyrir dóminn.

Í frétt Namibian er haft eftir lögmanni, sem kemur ekki fram undir nafni, að Jóhannes gæti verið lykilvitni í málinu.

Sex namibískir áhrifamenn hafa nú verið ákærðir fyrir að hafa þegið hið minnsta 103,6 milljónir namibíudala í mútur félögum tengdum Samherja, í skiptum fyrir aðgang að gjöfulum fiskimiðum Namibíu.

Þeir eru Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, Bernhardt Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformanni Fishcor, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasyni Esau og frænda áðurnefnds James, og Ricardo Gustavo, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins Namgomar.

Á mánudag var greint frá því að sexmenningarnir hefðu fallið frá kröfum sínum um að vera látnir lausir gegn tryggingu. Þeir munu því sæta gæsluvarðhaldi til 20. febrúar næstkomandi.


Tengdar fréttir

Sexmenningarnir í gæsluvarðhaldi til 20. febrúar

Namibísku sexmenningarnir sem grunaðir eru um spillingu, fjársvik og mútuþægni í tengslum við Samherjamálið féllu frá kröfum sínum um að vera látnir laus gegn tryggingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×