Enski boltinn

Mourinho: United ekki hræddir við að vera varnarsinnaðir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mourinho fór tómhentur frá Old Trafford.
Mourinho fór tómhentur frá Old Trafford. vísir/getty
José Mourinho mætti með Tottenham á Old Trafford, sinn gamla heimavöll, í kvöld. Úrslitin voru Portúgalanum ekki að skapi en Manchester United vann 2-1 sigur.



Marcus Rashford skoraði bæði mörk United, það síðara úr vítaspyrnu í upphafi seinni hálfleiks.



„Við byrjuðum seinni hálfleikinn á að fá á okkur mark sem þú átt ekki að fá á þig. Við vorum sofandi í innkasti og Rashford fékk boltann. Þegar hann er kominn inn í teiginn er erfiðara að verjast honum. Hann var sniðugur og beið eftir snertingu,“ sagði Mourinho eftir leik.



„Þeir byrjuðu leikinn betur, komust sanngjarnt yfir og hefðu getað komist í 2-0. En svo byrjuðum við að stjórna leiknum. Markið í upphafi seinni hálfleiks gerði United kleift að spila eins og þeir gerðu.“



Mourinho gat ekki stillt sig um að skjóta á sitt gamla lið.



„United hefur náð góðum úrslitum gegn bestu liðunum. Þeir eru ekki hræddir við að vera varnarsinnaðir. Það er auðveldara gegn betri liðum sem vilja vera með boltann,“ sagði Mourinho.



Tottenham vann fyrstu þrjá leikina undir stjórn Portúgalans en það kom bakslag í kvöld.



„Þetta var skref aftur á bak gegn liði sem er í sömu baráttu og við. Að reyna að klífa töfluna og komast í efstu sex sætin,“ sagði Mourinho.



„Við þurfum að halda áfram. Við gerðum mistök en græðum ekkert á því að gráta þau núna. Okkar bíður erfiður leikur gegn Burnley á laugardaginn.“



Mourinho fékk góðar móttökur á Old Trafford í kvöld.



„Þetta var indælt eins og ég bjóst við,“ sagði Portúgalinn að lokum.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.