Innlent

Snjókoma og hvassviðri fylgja lægðinni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lægðinni fylgir ekki bara hvassviðri heldur líka snjókoma.
Lægðinni fylgir ekki bara hvassviðri heldur líka snjókoma. Vísir/Hanna

Hæglætisveður verður í flestum landshlutum í dag, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Eitthvað mun þó bæta í snjókomuna sem verið hefur á Norðurlandi síðasta sólarhringinn, einkum verður éljagangur fram eftir degi á Norðausturlandi. Á morgun er svo von á lægð, með tilheyrandi hvassviðri og úrkomu sunnan- og suðvestanlands.

Búast má við vindi um 5-10 m/s víða á landinu í dag og bjartviðri með köflum eða léttskýjað. Enn verður þó vindstrengur austast á landinu og þar lægir ekki sem talið getur fyrr en í nótt. Áfram verður kalt á landinu, frost á bilinu 2 til 10 stig. Eftir hádegi á morgun kemur svo lægð upp að suðurströndinni og þá hvessir á Suður- og Suðvesturlandi. Vindur verður allt að 25 m/s þegar verst verður.

„Með lægðinni fylgir einnig snjókoma og því ráðlegt að fylgjast vel með fréttum af veðri og færð þurfi fólk að vera á ferðinni. Útlit er síðan fyrir áframhaldandi lægðagang og umhleypingar í næstu viku,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:
Austlæg átt 8-13 m/s og skýjað en þurrt, en hægari norðaustanlands og stöku él. Austan 15-23 m/s um kvöldið, hvassast syðst, og snjókoma á köflum, en hægari á Norður- og Austurlandi. Frost 1 til 10 stig.

Á sunnudag:
Norðaustan 10-18, hvassast með suðausturstöndinni, og snjókoma með köflum, en birtir til sunnan- og vestanlands. Frost 0 til 5 stig.

Á mánudag:
Suðaustanátt, snjókoma og síðar rigning, og hiti 0 til 5 stig. Skýjað og úrkomulítið á norðaustanverðu landinu og frost 2 til 8 stig.

Á þriðjudag:
Hvöss norðaustlæg átt og snjókoma norðan- og vestantil, en hægari og rigning eða slydda suðaustan- og austanlands. Hiti kringum frostmark.

Á miðvikudag:
Ákveðin norðaustanátt með snjókomu um norðanvert landið. Kólnandi.

Á fimmtudag:
Útlit fyrir austlæga átt og víða bjartviðri. Kalt í veðri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.