Innlent

Mál Íslands snúist ekki um sjálfstæði dómstóla

Heimir Már Pétursson skrifar

Íslensk stjórnvöld krefjast þess að yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu hafni niðurstöðu dómstólsins frá í vor um að Ísland hafi gerst brotlegt við sjöttu grein mannréttindasáttmála Evrópu með skipan fjögurra dómara í Landsrétt.

Ríkisstjórnin afgreiddi í dag greinargerð dómsmálaráðherra til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu vegna áfrýjunar stjórnvalda. En Arnfríður Einarsdóttir, einn fjögurra dómara sem Sigríður Andersen skipaði fram hjá niðurstöðu hæfisnefndar í Landsrétt dæmdi í máli þar sem maður var fundinn sekur. Hann vísaði máli sínu til Mannréttindadómstólsins á þeirri forsendu að ekki hafi verið staðið rétt að skipan dómarans og féllst Mannréttindadómstóllinn á þau sjónarmið í mars.

Dómararnir fjórir drógu sig frá störfum við réttinn eftir þessa niðurstöðu og Sigríður Andersen sagði af sér embætti dómsmálaráðherra. Stjórnvöld áfrýjuðu málinu til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins sem tekur málið fyrir hinn 5. febrúar.

Sjá einnig: Landsréttarmálið tekið fyrir hjá yfirdeild MDE í byrjun febrúar

Í greinargerð stjórnvalda segir meðal annars að skipan dómaranna hafi farið fram með gagnsæjum og opnum hætti, þar sem óháður aðili hafi talið Arnfríði að fullu hæfa til dómarastarfa, Alþingi hafi samþykkt skipan hennar og forseti Íslands skipað hana í embættið. Hún hafi tekið til starfa og þar með orðið bundin af viðeigandi skilyrðum stjórnarskrár og ekkert bendi til annars en hún hafi unnið eftir þeim.

Kjartan Bjarni Björgvinsson formaður Dómarafélagsins og sem fór fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis um einkavæðingu Búnaðarbankans og dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur segir verulegt áhyggjuefni að pólsk yfirvöld styðji íslenska ríkið í Landsréttarmálinu. Stjórnvöld þar hafi verið sökuð um fjandsamlega yfirtöku á dómskerfinu. Pólskir dómarar hafi undanfarin ár sætt ofsóknum og skipulögðum rógsherferðum stjórnarflokksins sem vilji afnema sjálfstæði dómstóla.

Sjá einnig: Lýsir áhyggjum af stuðningi pólskra yfirvalda við íslenska ríkið

En í greinargerð íslenskra stjórnvalda segir að mjög mikilvægt sé að skilja þetta mál frá dæmigerðum vandamálum sem nýlega hafi komið upp í öðrum Evrópuríkjum. Í þeim löndum virðist mál snúast um sjálfstæði dómstóla fremur en samkvæmt lögunum sjálfum. Mál Íslands snúist ekki um sjálfstæði dómstóla eins og 6. grein mannréttindasáttmálans kveði á um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×