Innlent

Víða ófært á Suðurlandi: Hafa losað minnst þrjátíu bíla í óveðrinu

Eiður Þór Árnason skrifar
Færðin í Vík í kvöld.
Færðin í Vík í kvöld. Aðsend
Ekkert ferðaveður er frá Hvolsvelli og austur yfir Mýrdalssand vegna storms og óveðurs. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er ófært vegna veðurs frá Skógum að Reynisfjalli en vegurinn um Reynisfjall hefur verið lokaður í kvöld. Vindur á Suðurlandi hefur náð allt að 40 metrum á sekúndu.

Ófært er í Vík og þegar Vísir ræddi við Orra Örvarsson, formann björgunarfélagsins Víkverja, um níuleytið í kvöld sagði hann að aðeins væri farið að róast í útköllum hjá sveitinni. Hann telur að björgunarfélagið hafi aðstoðað ökumenn minnst 30 bíla frá því klukkan fjögur í dag.

Orri segir þetta hafa verið ansi öflugan dag og að fjölmargir bílar hafi fest sig síðdegis og í kvöld, meðal annars á Reynisfjalli. Einnig hafi björgunarsveitarfólk veitt mörgum ferðamönnum liðsinni í Vík þar sem fjöldi er nú fastur.

„Það eru búnir að vera frá okkur tveir bílar nánast síðan klukkan fjögur í dag og eru enn þá úti. Allt bara svona minniháttar verkefni.“

Orri segir að íbúar í Mýrdal hafi einnig þurft að finna fyrir rafmagnsleysi og taldi hann að rafmagn væri þar enn í ólagi.

„Það er mikið bras á mönnum frá RARIK að komast að biluninni. Það er snjór í fjallinu og erfitt að komast að þar sem bilunin er.“

Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×