Innlent

Drukkinn ferðamaður með of marga farþega

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mál af ýmsu tagi komu inn á borð lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Mál af ýmsu tagi komu inn á borð lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Vísir/vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði ökumann í vesturbæ Reykjavíkur um klukkan tvö í nótt. Ökumaðurinn reyndist erlendur ferðamaður, að því er segir í dagbók lögreglu, og er grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur. Þá voru einnig of margir farþegar í bílnum.

Á níunda tímanum í gærkvöldi var bíll stöðvaður í Laugardalnum. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, vörslu slíkra efna og brot á vopnalögum. Þá ók hann einnig sviptur ökuréttindum.

Þá stöðvaði lögregla erlendan ferðamann á Reykjanesbraut við Hvassahraun á 126 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Ferðamaðurinn var sektaður og hann greiddi sektina um hæl, að því er segir í dagbók lögreglu.

Sautján ára stúlka var stöðvuð í Árbæ skömmu fyrir miðnætti í gær vegna gruns um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Þá hafði hún aldrei öðlast ökuréttindi. Í dagbók lögreglu segir að málið hafi verið afgreitt með aðkomu móður stúlkunnar og tilkynningu til Barnaverndar. 

Þá var maður handtekinn á heimili í Kópavogi í gærkvöldi grunaður um vörslu og ræktun fíkniefna. Lögregla lagði hald á efni, plöntur og búnað til slíkrar iðju á heimilinu. Maðurinn var látinn laus að lokinni skýrslutöku.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.