Erlent

Áströlsk móðir á­kærð fyrir morð fyrir að skilja dætur sínar eftir í bíl

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Kerri-Ann Conley, móðir barnanna.
Kerri-Ann Conley, móðir barnanna. facebook
Áströlsk móðir hefur verið ákærð fyrir morð eftir að börnin hennar tvö fundust í bíl í steikjandi hita. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins. Um er að ræða tvær stúlkur, sem voru eins og tveggja ára og fundust þær látnar í bíl af lögreglumönnum. í Queensland á laugardag. Óvíst er hversu lengi þær höfðu verið í bílnum.

Þegar lík stúlknanna fundust, í bæ nærri Brisbane, var hitastigið í kring um 31°C. Móðir þeirra Kerri-Ann Conley, 27 ára gömul, er fyrsta manneskjan til að vera ákærð fyrir morð eftir að skilgreiningunni á morði var breytt í Queensland en nú er „kærulaust skeytingarleysi gagnvart mannslífi“ hluti af þeirri skilgreiningu.

Auk þess var hún kærð fyrir vörslu fíkniefna og áhalda til notkunar þeirra, samkvæmt fréttastofu ABC.

Ríkisstjóri Queensland, Annastacia Palaszczuk, lýsti andláti barnanna sem harmleik og sagði að barnaverndaryfirvöld ættu að skoða málið. „Ég var miður mín þegar ég frétti af málinu,“ sagði hún.

Hún bætti því við að hún vissi að barnaverndaryfirvöld hafi haft auga með heimilinu.

Lögreglan í Queensland var kölluð til ásamt sjúkraliðum sem reyndu að endurlífga systurnar en þær  voru úrskurðaðar látnar á staðnum. Mark White, rannsóknarlögreglumaður, sagði að vitni hafi stigið fram og aðstoði nú lögreglu við rannsóknina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×