Meintur árásarmaður sagðist hafa lært lögfræði

Óvenju rólegt var hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld og nótt en til marks um það þá var einungis einn maður í fangageymslu lögreglunnar framan af nóttu, er fram kemur í dagbók lögreglu.
Talsverð ölvun var þó í miðbænum og þurftu lögreglumenn meðal annars að hafa afskipti af nokkrum ungmennum undir 18 ára aldri. Þau voru færð á lögreglustöð þar sem þau voru sótt af foreldrum.
Á fjórða tímanum í nótt var maður handtekinn á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur grunaður um að hafa kastað glasi í höfuð annars manns.
Sá handtekni kvaðst hafa tekið nokkur ár í lögfræði og neitaði að segja til nafns og hélt því fram að honum bæri ekki skylda til þess. Hann gistir nú í fangaklefa.
Klukkan fimm í morgun gistu tveir í fangaklefa lögreglunnar.