Erlent

Fundu kven­manns­hand­leggi í bak­poka prófessors

Sylvía Hall skrifar
Oleg Sokolov klæddi sig iðulega upp sem Napoleon Bonaparte og hafði ætlað sér að taka eigið líf í slíkum búningi.
Oleg Sokolov klæddi sig iðulega upp sem Napoleon Bonaparte og hafði ætlað sér að taka eigið líf í slíkum búningi. Vísir/EPA
Rússneskur sagnfræðiprófessor á sjötugsaldri hefur játað að hafa myrt ástkonu sína eftir að handleggir hennar fundust í bakpoka hans. Prófessorinn, hinn 63 gamli Oleg Sokolov, hafði ætlað sér að taka eigið líf eftir að hann hefði losað sig við líkið.

Þegar Sokolov ætlaði að losa sig við bakpokann í ánna féll hann sjálfur ofan í þar sem lögregla fann bæði hann og bakpokann. Aðrir líkamshlutar hinnar 24 ára gömlu Anastasiu Yeshchenko fundust á heimili Sokolov og játaði hann að hafa myrt hana eftir rifrildi milli þeirra og í kjölfarið sagað af henni höfuðið, handleggi og fótleggi.

Prófessorinn er mikilsvirtur í heimalandinu og víðar fyrir þekkingu sína á hershöfðingjanum Napoleon Bonaparte og hafði meðal annars hlotið heiðursviðurkenningu í Frakklandi. Vegna aðdáunar sinnar á hershöfðingjanum ætlaði hann sér að taka eigið líf eftir morðið og það á opinberum vettvangi, klæddur sem Napoleon.

Yeschenko hafði verið nemandi Solokov og seinna meir unnið með honum að ýmsum fræðiskrifum. Að sögn vina hennar var hún fyrirmyndarnemandi og hafði parið ekki farið leynt með samband sitt, þrátt fyrir aldursmuninn. Þau höfðu bæði unun af því að klæða sig upp í miðaldarbúninga og kallaði hann ástkonu sína jafnan Josephine og vildi að hún ávarpaði sig sem „sire“ líkt og hann væri aðalsmaður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×