Erlent

Ráð­herra sagður hafa óskað eftir því að há­karlinn verði rekinn

Eiður Þór Árnason skrifar
WikiLeaks birti mikinn fjölda skjala um starfsemi Samherja þar sem hákarlarnir svokölluðu spila stórt hlutverk.
WikiLeaks birti mikinn fjölda skjala um starfsemi Samherja þar sem hákarlarnir svokölluðu spila stórt hlutverk. Vísir/Hafsteinn
Leon Jooste, ráðherra ríkisfyrirtækja í Namibíu, er sagður hafa óskað eftir því við Albert Kawana, nýráðinn sjávarútvegsráðherra landsins, að hann leysi James Hatuikulipi, stjórnarformann Fishcor, frá störfum. Namibíska dagblaðið Namibian Sun greinir frá þessu.

Ráðherrann er sagður vilja losna við Hatuikulipi ásamt Mike Nghipunya, forstjóra Fishcor, þar sem þeir séu til rannsóknar vegna mögulegrar þátttöku sinnar í meintu mútuhneyksli í tengslum við úthlutun sjávarútveigskvóta þar í landi.

Sjá einnig: Samherjamálið skref fyrir skref

Hatuikulipi er áberandi í Samherjaskjölunum svonefndu og er einn þremenninganna sem hafa verið nefndir „hákarlarnir.“ Fishcor er sjávarútvegsfyrirtæki í eigu namibíska ríkisins sem Íslendingar hjálpuðu til við að stofna árið 2014.

Fishcor sér um að útdeila kvóta í Namibíu og hefur Hatuikulipi verið áberandi í umfjöllun um starfsemi Samherja í landinu. Er hann sagður hafa spilað veigamikinn þátt í því að útvega Samherja kvóta hagstæðu verði og benda gögn sömuleiðis til þess að hann hafi fengið háar greiðslur frá Samherja.

Greint var frá því á vef RÚV í kvöld að Hatuikulipi hafi í dag sagt upp störfum sem stjórnandi hjá fjármálafyrirtækinu Investec Asset Management.

Fram hefur komið að þeir sem þáðu hinar meintu mútugreiðslu séu Bernhardt Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Tamson „Fitty“ Hatuikulipi, sem starfaði sem ráðgjafi fyrir Samherja, James Hatukulipi, stjórnarformaður í ríkisfyrirtækinu Fishcor og Sacky Shangala, fyrrverandi dómsmálaráðherra. Sá fimmti sem nefndur er sem hugsanlegur mútuþegi er Mike Nghipunya, framkvæmdastjóri Fishcor.

Shangala og Esau hafa báðir sagt af sér embætti í kjölfar umfjöllunar um mál Samherja í Namibíu.


Tengdar fréttir

Óttast ekki fangelsi

Þorsteinn Már Baldvinsson leggur mikla áherslu á þá innri rannsókn sem Samherji hefur blásið til í tengslum við umfjöllun um starfsemi fyrirtækisins í Namibíu, sannleikurinn muni koma í ljósi.

Þorsteinn Már stígur til hliðar

Forstjóri og stjórn Samherja hafa komist að samkomulagi um að forstjóri félagsins, Þorsteinn Már Baldvinsson, stígi tímabundið til hliðar þar til helstu niðurstöður yfirstandandi innri rannsóknar á ætluðum brotum dótturfélags í Namibíu liggja fyrir.

Útnefndur tengiliður Samherja þögull

Í einu bréfa sinna til RÚV í aðdraganda Kveiksþáttar um meintar mútugreiðslur Samherja í Afríkuríkinu Namibíu kveðst forstjóri fyrirtækisins hafa fengið til liðs við sig norskan mann að nafni Håkon Borud hjá ráðgjafarfyrirtækinu First House.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.