Enski boltinn

Þegar handarkrikinn er farinn að gera menn rangstæða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Firmino bíður á meðan markið hans er skorað. Það var síðan dæmt af vegna rangstöðu.
Roberto Firmino bíður á meðan markið hans er skorað. Það var síðan dæmt af vegna rangstöðu. Getty/Laurence Griffiths
Varsjáin er enn á ný til umræðu eftir leiki helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni og enn á ný fer bæði tíminn og smáatriðadómgæslan í taugarnar á mörgum.Knattspyrnusérfræðingurinn Chris Sutton ræddi nýjustu dæmin með Varsjána og þann möguleika að myndbandadómarar leikjanna séu að fara á taugum eftir að þurfa dæma um hvert smáatriðið á fætur öðru.„Ég var aðdáandi VAR en ættum við ekki að taka huglægu dómana út úr henni,“ sagði Chris Sutton í þættinum Monday Night Club á BBC radio 5 Live.„Mike Riley hefur sagt dómurunum að nota ekki skjáina á hliðarlínunni til að spara tíma. Mér var samt sagt það á sínum tíma að það yrði alltaf að vera dómari leiksins sem ætti að taka lokaákvörðunina. Það er ekki raunin lengur og mér finnst það vera risastórt mál,“ sagði Sutton.Það voru margir umdeildir VAR-dómar um helgina. Einn þeirra var þegar handakriki Liverpool mannsins Roberto Firmino gerði hann rangstæðan í marki sem var dæmt af, Watford fékk líka dæmda vítaspyrnu fyrir litla snertingu og Everton fékk ekki víti eftir margra mínútna skoðun eftir að boltinn fór í hendi Dele Alli í teignum.Hér fyrir neðan má sjá mynd af rangstöðunni sem var dæmd á Roberto Firmino þegar hann skoraði á móti Aston Villa. Þetta hefði eflaust orðið mun stærra mál ef að Liverpool hefði síðan ekki náð að tryggja sér öll þrjú stigin í lokin.Leikmennirnir voru samsíða fram að handarkrikanum og í reglunum kemur fram að sóknarmaðurinn eigi að njóta vafans. Það er því í raun handarkriki Roberto Firmino sem gerir hann rangstæðan. Hvort að einhver hafi skorað með honum er önnur saga.„Menn eru að fara á taugum í Stockley Park,“ sagði Chris Sutton en þar eru myndbandadómararnir staðsettir.„Versta ákvörðunin var að mínu mati þegar Dele Alli fékk boltann í höndina. Það tók þrjá mínútur að komast að niðurstöðu þrátt fyrir að hendi hans hafi verið í mjög óeðlilegri stöðu og boltinn hafi farið greinilega í hana,“ sagði Sutton.„Dómarar eiga kost á því að fara yfir völlinn og skoða atvikin á skjánum en þeir nýta það ekki. Þeir vilja ekki taka ábyrgðina og eru bara hræddir,“ sagði Sutton.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.