Erlent

Vilja að starfsmannastjóri Trump beri vitni

Mick Mulvaney ætlar ekki að verða við beiðni þingmanna.
Mick Mulvaney ætlar ekki að verða við beiðni þingmanna. AP/Evan Vucci
Þingmenn fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hafa beðið Mick Mulvaney, fyrrverandi þingmann og starfandi starfsmannastjóra Hvíta hússins, um að mæta á fund þingmanna. Þar á hann að svara spurningum varðandi rannsókn þingsins á því hvort Donald Trump hafi brotið af sér í starfi.

Formenn þeirra Þriggja þingnefnda sem leiða rannsóknina sendu Mulvaney erindi í gær þar sem þeir segjast telja að hann geti, vegna stöðu sinnar, svarað mikilvægum spurningum þingmanna. Mulvaney ætlar að hunsa þessa beiðni fyrrverandi samstarfsmanna sinna, eins og svo margir aðrir starfsmenn Trump hafa gert hingað til.

Þar að auki hefur Mulvaney áður hunsað stefnu um að afhenda þingin skjöl vegna rannsóknarinnar. Hún snýr að miklu leyti að þrýstingi sem Trump og bandamenn hans beittu gegn yfirvöld Úkraínu. Markmiðið var að fá Úkraínumenn til að lýsa því yfir að þeir ætluðu sér að opna rannsókn sem sneri að einhverju leyti að syni Joe Biden, fyrrverandi varaforseta og núverandi forsetaframbjóðenda.

Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna, gagnvart Evrópusambandinu, breytti á dögunum framburði sínum og viðurkenndi að Hvíta húsið hefði haldið aftur umfangsmikilli hernaðaraðstoð til Úkraínu, sem þingið hafði samþykkt, með því markmiði að þvinga forseta Úkraínu til að hefja áðurnefnda rannsókn og aðra sem snýr að samsæriskenningu um að tölvuárásin á Landsnefnd Demókrataflokksins í aðdraganda forsetakosninganna 2016 hafi verið sviðsett til að koma sök á Rússa.


Tengdar fréttir

Lykilvitni breytir framburði sínum

Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu, hefur viðurkennt að hafa tilkynnt aðstoðarmanni forseta Úkraínu að hernaðaraðstoð yrði ekki afhent fyrr en Úkraínumenn hefðu rannsóknir sem Trump hafði krafið Volodymr Zelensky, forseta Úkraínu, um og lýstu því yfir opinberlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×