Erlent

Trump hótar vitni og vill láta afhjúpa uppljóstrara

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump fór með fjölda ósanninda um efni kvörtun uppljóstrara þegar hann ræddi við fréttamenn í gær.
Trump fór með fjölda ósanninda um efni kvörtun uppljóstrara þegar hann ræddi við fréttamenn í gær. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti lét í veðri vaka að hann ætlaði að láta birta skaðlegar upplýsingar um starfsmann þjóðaröryggisráðs hans sem bar vitni í rannsókn þingnefnda á mögulegum embættisbrotum forsetans. Á sama tíma hefur hann hvatt fjölmiðla til að afhjúpa uppljóstrara sem á að njóta opinberrar verndar samkvæmt lögum.Eftir að Alexander Vindman, undirofursti og sérfræðingur þjóðaröryggisráðsins um málefni Úkraínu, bar vitni um að hann hafi í tvígang lýst áhyggjum af samskiptum Trump forseta við Úkraínu sem hann taldi óeðlileg til lögfræðings Hvíta hússins hefur Trump ítrekað sakað hann um að vera svonefndur „Aldrei Trump“-liði án sannana. Það er nafnið sem Trump og bandamenn hans hafa notað um pólitíska andstæðinga hans innan Repúblikanaflokksins.Fréttamenn spurðu Trump út í hvaða sannanir hann hefði fyrir því að Vindman væri honum andsnúinn gaf forsetinn ekki skýrt svar en virtist hóta því að birta upplýsinga um undirofurstann.„Við ætlum að sýna ykkur þau mjög fljótt, allt í lagi?“ sagði Trump.Framburður Vindman í rannsókninni á því hvort Trump hafi framið embættisbrot þegar hann þrýsti á úkraínsk stjórnvöld að rannsaka pólitískan andstæðinga hans þótt sérstaklega skaðlegur. Auk þess að lýsa eigin áhyggjum af því að Trump hefði grafið undan þjóðaröryggi Bandaríkjanna greindi Vindman frá því að lögfræðingur Hvíta hússins hafi skipað sér að hafa ekki orð á þeim við neinn utan ríkisstjórnarinnar.Lögfræðingurinn kom svo eftirriti af símtali Trump og Volodomír Zelenskíj, forseta Úkraínu, fyrir í tölvukerfi fyrir háleynilegar upplýsingar til að fyrirbyggja að efni þess spyrðist út. Vindmann var einn þeirra embættismanna sem hlustaði á símtali Trump og Zelenskíj þegar það fór fram.

Vindman undirofursti bar meðal annars vitni um að minnisblað sem Hvíta húsið gaf út um símtal Trump og Zelenskíj hafi vikið frá eftirriti þess. Trump hefur lýst símtalinu sem fullkomnu.AP/Patrick Semansky

Ráðast á trúverðugleika uppljóstrara án rökstuðnings

Rannsókn fulltrúadeildar Bandaríkjaþings á mögulegum embættisbrotum Trump vegna samskiptanna við Úkraínu hófst eftir að upplýst var um að uppljóstrari innan leyniþjónustunnar hefði lagt fram formlega kvörtun. Í henni varaði uppljóstrarinn við að forsetinn kynni að hafa misbeitt valdi sínu í samskiptum við Zelenskíj og að Hvíta húsið hefði reynt að hylma yfir það.Trump hefur ítrekað fullyrt án nokkurs rökstuðnings að uppljóstrarinn hafi farið rangt með innihald símtals hans og Zelenskíj. Efni kvörtunar uppljóstrarans hefur hins vegar í meginatriðum verið staðfest í framburði núverandi og fyrrverandi embættismanna í ríkisstjórn Trump og einnig í minnisblaði sem Hvíta húsið birti sjálf um símtal Trump og Zelenskíj. Í því mátti sjá að Trump rak ítrekað eftir því að Zelenskíkj samþykkti að rannsaka pólitíska andstæðinga hans.Þrátt fyrir það hafa Trump og repúblikanar í fulltrúadeildinni lagt ofurkapp á að upplýsa um hver uppljóstrarinn er og að tekinn verði af honum skýrsla. Trump hefur nú endurtekið kallað eftir því að hulunni verði svipt af honum þrátt fyrir að uppljóstrarinn eigi að njóta opinberrar verndar samkvæmt lögum eftir að hann lagði fram formlega kvörtun.Vísaði forsetinn í fullyrðingar og vangaveltur í hægrisinnuðum fjölmiðlum um hver uppljóstrarinn sé þegar hann ræddi við fréttamenn við Hvíta húsið í gær. Gaf Trump í skyn að uppljóstrarinn tengdist á einhvern hátt fyrri ríkisstjórn Baracks Obama og að hann „hati Trump“.„Kannski er þetta ekki hann en ef þetta er hann ættuð þið að birta þessar upplýsingar,“ sagði forsetinn við fréttamenn.Þá varð forsetinn margsaga um símtal hans og Zelenskíj sem hann hefur sjálfur ítrekað lýst sem „fullkomnu“. Fullyrti Trump í fyrstu við fréttamenn að enginn af þeim sem sátu símtalið hafi haft neitt við það að athuga en einnig að aðeins „örfáir“ sem hann þekkti hefðu gefið sig fram með áhyggjur. Þeir sem hefðu lýst áhyggjum hafi aðeins gert það þegar fjölmiðlar gengu á þá og margir þeirra sem það gerðu væru „Aldrei Trump“-sinnar. Öllu þessu hélt forsetinn fram í sömu andránni.

Hafna boði um skrifleg svör

Lögmenn uppljóstrarans hafa hafnað því að greina frá því hver hann er og varað við því að hann gæti verið í hættu ef hann yrði nafngreindur opinberlega. Þeir sem það gerðu bæru persónulega ábyrgð ef uppljóstrarinn hlyti skaða af.

Þeir buðu þingmönnum repúblikana í fulltrúadeildinni að uppljóstrarinn svaraði spurningum þeirra skriflega. Því höfnuðu repúblikanar hins vegar og tók Trump forseti undir það á Twitter. Uppljóstrarinn yrði að bera vitni fyrir þingnefndunum í persónu.Nokkrir embættismenn ríkisstjórnar Trump sem hafði verið stefnt til að koma fyrir þingnefndirnar í dag ætla að virða stefnurnar að vettugi. Þeirra á meðal er John Eisenberg, lögfræðingur Hvíta hússins og þjóðaröryggisráðsins, sem Vindman tilkynnti um áhyggjur sínar og reyndi að takmarka aðgang að eftirriti símtals Trump og Zelenskíj.Hvíta húsið hefur lýst því yfir að það ætli ekki að sýna rannsókn þingsins neina samvinnu. Engu að síður hafa nokkrir núverandi og fyrrverandi embættismenn borið vitni eftir að þeim var stefnt til þess.


Tengdar fréttir

Bandamenn Trump ráðast á vitni vegna uppruna þess

Starfsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna var sakaður um að vera njósnari og mögulega óþjóðrækinn í hægrisinnuðum fjölmiðlum eftir að hann bar vitni sem kom Trump forseta illa.

Núverandi starfsmaður Hvíta hússins ber vitni

Offurstinn Alexander Vindman, sem situr í þjóðaröryggisráði Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, lýsti tvisvar sinnum yfir áhyggjum vegna viðleitni ríkisstjórnar Trump og utanaðkomandi aðila sem tengjast Trump til að fá yfirvöld Úkraínu til að rannsaka pólitískan andstæðing forsetans.

Reyndi að bæta við eftirrit símtals Trump og Zelensky

Alexander S. Vindman, undirofursti, sagði þingmönnum í gær að honum hafi verið svo brugðið yfir framferði Trump gagnvart Úkraínu að hann hafi gert lögfræðingum þjóðaröryggisráðsins viðvart í tvígang.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.