Fótbolti

Skagamenn mæta Derby í kvöld: „Allir í bænum spenntir fyrir leiknum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Annar flokkur ÍA hefur orðið Íslandsmeistari tvö ár í röð.
Annar flokkur ÍA hefur orðið Íslandsmeistari tvö ár í röð. mynd/ía

ÍA tekur á móti Derby County í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Unglingadeildar UEFA í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:00 og fer fram á Víkingsvelli.

„Þetta er fínt. Maður er ekki vanur að spila svona lengi en við höfum verið duglegir að æfa,“ sagði Sigurður Hrannar Þorsteinsson, fyrirliði ÍA, í samtali við Vísi í gær. Hann var þá nýkominn úr skólanum og á leið á æfingu.

ÍA hefur orðið meistari í 2. flokki undanfarin tvö ár. Í sumar töpuðu Skagamenn ekki leik í A-deild og fengu sjö stigum meira en næsta lið, Breiðablik. Sigurður var markahæsti leikmaður A-deildarinnar með 22 mörk í 18 leikjum. Hann var einnig viðloðandi meistaraflokk ÍA.

Í 32-liða úrslitum Unglingadeildar UEFA unnu Skagamenn Levadia Tallinn frá Eistlandi, 16-1 samanlagt. ÍA vann fyrri leikinn á Akranesi, 4-0, og þann seinni, 12-1, sem er stærsti sigur liðs í sögu Unglingadeildar UEFA.

Gefur sér að þeir séu góðir í fótbolta

„Við vissum voða lítið um þetta lið. Við ætluðum bara að spila okkar leik og það gafst mjög vel, allavega í seinni leiknum,“ sagði Sigurður. Hann býst við öllu erfiðari leikjum gegn Derby. Enska liðið vann Minsk frá Hvíta-Rússlandi í 16-liða úrslitunum, 9-2 samanlagt.

„Við sáum seinni leikinn gegn Minsk á YouTube. Maður getur gefið sér það að þeir séu góðir í fótbolta. Það eru nokkrir sem eru að æfa með aðalliði Derby,“ sagði Sigurður sem er fæddur árið 2000 og er á lokaári sínu í 2. flokki.

Hann segir Skagamenn spennta fyrir að mæta Hrútunum frá Derby.

„Þetta er risastórt lið. Maður heyrir það alveg þegar maður ræðir við fólkið í bænum,“ sagði Sigurður.

Hann á von á því að Skagamenn fjölmenni í Víkina í kvöld.

„Ég hef heyrt að það verði mjög góð mæting. Ég held að allir í bænum séu mjög spenntir fyrir þessum leik,“ sagði Sigurður að lokum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.