Fótbolti

„Fannst dómarinn missa sig þegar hann rak tvo leikmenn Ajax út af“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ítalski dómarinn Gianluca Rocchi hafði í nógu að snúast í leik Chelsea og Ajax á Stamford Bridge í Meistaradeild Evrópu í gær. Hann dæmdi tvær vítaspyrnur á Ajax og rak tvo leikmenn hollensku meistaranna af velli á sömu mínútunni.

Daley Blind fékk sitt annað gula spjald fyrir brot og Joël Veltmann fyrir að handleika boltann innan teigs. Chelsea fékk víti sem Jorginho skoraði úr og minnkaði muninn í 3-4. Reece James jafnaði svo í 4-4 fyrir Chelsea sem urðu lokatölur leiksins.

Ólafur Kristjánsson og Jóhannes Karl Guðjónsson voru sérfræðingar í Meistaradeildarmessunni í gær. Þá greindi á um ýmis atriði í dómgæslunni.

„Mér fannst dómarinn missa sig þegar hann rak tvo leikmenn Ajax út af,“ sagði Jóhannes Karl. Ólafur var ekki sammála Skagamanninum og hrósaði Rocchi fyrir hans frammistöðu.

„Þetta er það sem við viljum sjá. Hann leyfði þessu að þróast aðeins og var ekki snöggur að flauta. Síðan hagast atvik þannig að Blind fær rautt fyrir brot sem var rétt. Og fyrst hann mat þetta sem hendi víti fær hann seinna gula,“ sagði Ólafur.

Jóhannes Karl vildi meina að dómarinn hefði verið full mikið í sviðsljósinu í leiknum.

„Skemmtunin var gríðarlega góð en það breytir því ekki að dómarinn var, að mínu mati, í alltof stóru hlutverki. Og þetta VAR-dæmi er að verða alltof stórt. Það pirrar mig hvað þeir eru farnir að skoða þetta alveg ofan í smáatriði. Að mínu mati hefði hann ekki átt að reka tvo Ajax-menn út af,“ sagði Jóhannes Karl sem var á því að Veltman hefði átt að sleppa við rauða spjaldið.

„Við værum ekkert að tala um að þetta væri sanngjarnt nema af því að þetta fór jafntefli. Ef Ajax hefði tapað þessum leiknum værum við ekki að tala um þetta svona,“ bætti Jóhannes Karl við.

Umræðuna má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×