Átta mörk og tvö rauð spjöld í ótrúlegu jafntefli á Brúnni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. vísir/getty
Chelsea og Ajax gerðu jafntefli, 4-4, í rosalegum leik á Stamford Bridge er liðin mættust í H-riðli Meistaradeildar Evrópu.

Ajax komst yfir strax á 2. mínútu er Tammy Abraham gerði sjálfsmark en tveimur mínútum síðar jafnaði Jorginho úr vítaspyrnu.

Hollendingarnir voru þó ekki af baki dottnir og voru komnir í 3-1 fyrir hlé. Quincy Promes kom þeim í 2-1 og Kepa Arrizabalaga gerði svo sjálfsmark á 35. mínútu eftir stórkostlega aukaspyrnu Hakim Ziyech.





Donny van de Beek virtist svo að vera gera út um leikinn eftir 55 mínútur er hann skoraði fjórða mark Ajax. Heimamenn voru þó ekki hættir og Cesar Azpilicueta minnkaði muninn á 63. mínútu.

Ajax fengu tvö rauð spjöld á 68. mínútu eftir ótrúlega atburðarás. Daley Blind braut af sér í uppbyggingu sóknarinnar og Joel Veltman fékk svo boltann í höndina. Báðir höfðu þeir fengið gult spjald fyrr í leiknum.

Jorginho minnkaði muninn í 4-3 á 71. mínútu og þremur mínútum síðar jafnaði varamaðurinn Reece James metin. Rosalegur leikur á Brúnni.

Cesar Azpilicueta virtist vera tryggja Chelsea sigurinn með marki tólf mínútum fyrir leikslok en markið var dæmt af eftir skoðun í VARsjánni. Lokatölur 4-4.





Ajax, Chelsea og Valencia eru öll með sjö stig en Lille er á botninum með eitt stig. Alvöru spenna í H-riðlinum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira