Erlent

Vilja ekki að kvenkyns starfsmenn noti gleraugu

Sylvía Hall skrifar
Konur í Japan hafa gagnrýnt þær útlitslegu kröfur sem gerðar eru til kvenna þar í landi.
Konur í Japan hafa gagnrýnt þær útlitslegu kröfur sem gerðar eru til kvenna þar í landi. Vísir/Getty

Fjölmiðlar í Japan greina frá því að nokkur fyrirtæki þar í landi hafi bannað kvenkyns starfsmönnum í þjónustustörfum að ganga með gleraugu. Ástæðan er sögð vera sú að gleraugun geri þær viðmót þeirra kuldalegra.

Þetta kemur fram í frétt BBC en þar segir að málið hafi nú þegar orðið til þess að umræður hafi skapast um þær kröfur sem gerðar eru til kvenna í landinu. Til að mynda sé það nánast óskrifuð regla að konur þurfi að klæðast hælaskóm þegar þær sækja um störf.

„Konur eru metnar að mestu eftir útliti þeirra,“ segir Kumiko Nemoto, prófessor í félagsfræðum við háskóla í Kyoto. Hún segir málið snúast alfarið um kyn og þær mismunandi kröfur sem samfélagið gerir til kynjanna. Frammistaða kvenna í starfi skipti minna máli en útlit þeirra.

Ekki er vitað hvort umrætt gleraugnabann sé í vinnureglum þeirra fyrirtækja sem um ræðir eða hvort það sé frekar óskrifuð regla sem kvenkyns starfsmenn þurfi að fylgja. Dæmi eru um að fyrirtæki hafi borið fyrir sig öryggisástæður og sagt að til að mynda sé það öruggara fyrir starfsmenn flugfélaga að nota ekki gleraugu.

Miklar umræður skapast um málið á samfélagsmiðlum og hafa konur í kjölfarið tjáð sig um þá pressu sem þær finna fyrir á vinnustöðum. Þá þykja ummæli heilbrigðis- og vinnumálaráðherra landsins um að konur ættu að vera skyldugar til þess að klæðast háum hælum á vinnustaðnum vera til marks um ríkjandi viðhorf í garð kvenna þar í landi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.