Erlent

Konungurinn rak sex „einstaklega illa“ starfsmenn

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd af Maha Vajiralongkorn, konungi Taílands.
Mynd af Maha Vajiralongkorn, konungi Taílands. EPA/NARONG SANGNAK

Maha Vajiralongkorn, konungur Taílands, hefur rekið sex starfsmenn sína nokkrum dögum eftir að hann svipti opinbera frillu sína öllum hennar titlum. Í tilkynningu frá konungnum segir að fólkið hafi verið rekið vegna alvarlegra agabrota þeirra og hegðunar sem skilgreind er sem „einstaklega ill“.

Hópurinn inniheldur meðal annars háttsettan yfirmann lögreglunnar og tvo lífverði konungsins. Brottrekstur þeirra hefur ekki verið tengdur við útskúfun frillu konungsins.

Sineenat Wongvajirapakdi var svipt titlum hennar sem opinber frilla konungsins á dögunum.

Í yfirlýsingu frá skrifstofu konungsins í fyrradag segir að Sineenat hafi verið refsað fyrir að reyna að setja sig á sama stall og drottningin. Var sagt að hún hafi ekki sýnt næga hollustu, hún hafi verið óþakklát og metnaðargjörn.

Sjá einnig: Frilla konungs Taílands fallin í ónáð

Ekki er vitað hvar hún er stödd í dag.
Frá því Vajiralongkorn settist í hásætið árið 2016 hefur hann í raun nýtt völd konungsins meira en áður hefur verið gert. Meðal annars hefur hann tekið yfir stjórn umfangsmikils auðs konungsfjölskyldunnar og fært herdeildir hers Taílands undir eigin stjórn.
Það er ólöglegt að gagnrýna konungsfjölskyldu Taílands og er mögulegt að dæma fólk í fimmtán ára fangelsi fyrir slík brot.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.